Ætlar að „drepa“ frábært lið City

Mauricio Pochettino.
Mauricio Pochettino. AFP

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, segir að það sé ekkert vandamál í hans huga þó leikmenn fagni sigri með miklum látum. Hann segir að hans menn ætli að „drepa“ Manchester City en liðin mætast síðdegis í ensku úrvalsdeildinni.

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, var pirraður eftir að leikmenn City fögnuðu sigrinum í Manchester-slagnum um síðustu helgi með miklum látum. Pochettino segir að sigurliðið eigi að fá að fagna.

„Ég mun aldrei kvarta yfir fagnaðarlátum hins liðsins. Stundum er gott þegar þú tapar að heyra lætin í hinum búningsklefanum og finna fyrir sársaukanum,“ sagði Pochettino.

Hann segir að leikurinn í dag verði snúinn fyrir Tottenham. City hefur unnið 15 deildarleiki í röð og er með 49 stig eftir 17 leiki. Byrjun City er sú besta í efstu deild á Englandi í 57 ár.

„City stendur sig frábærlega núna. Við ætlum að berjast, drepa þá og reyna að vinna,“ sagði Pochettino.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert