Mig skortir orð

Jan Vertonghen brýtur á Kevin De Bruyne í leiknum í …
Jan Vertonghen brýtur á Kevin De Bruyne í leiknum í gærkvöld en dæmd var vítaspyrna sem Gabriel Jesus klúðraði - skaut í stöng. AFP

Pep Guardiola knattspyrnustjóri Manchester City sagðist vart eiga orð yfir frammistöðu Belgans Kevins De Bruyne í sigri liðsins á Tottenham, 4:1, í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöld.

De Bruyne skoraði eitt markanna og átti stórleik en skömmu áður en hann skoraði á 70. mínútu leiksins var hann tæklaður illa af Dele Alli.

„Sem betur fer fékk hann bara högg," sagði Guardiola um það atvik. „Ég vil þakka öllum mínum mönnum fyrir leikinn en sérstaklega Kevin því hann er einn einn hæfileikaríkasti leikmaður heims í dag og sjáið bara hvernig hann hleyptur án boltans.

Hann er mikil fyrirmynd fyrir unga leikmenn í okkar röðum. Þeir vita hversu góður hann er, og þegar þeir sjá hversu mikið hann leggur á sig, hleypur og berst, er það besta fordæmið sem hægt er að gefa. Frammistaða hans í dag - mig skortir orð til að lýsa henni," sagði Guardiola.

„Við áttum stórkostlegan leik, skoruðum fjögur mörk og sköpuðum fullt af færum gegn einu af bestu og sterkustu liðum deildarinnar og gegn einum besta þjálfara heims. Við erum afar ánægðir með hugarfarið, liðið var komið með fimmtán sigra í röð og bætti nú einum við," sagði Guardiola en City náði með sigrinum fjórtán stiga forskoti á Manchester United og Chelsea. United mætir WBA á útivelli í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert