Schumacher ósnertanlegur í óspennandi keppni í Hockenheim

Michael Schumacher og Felipe Massa fremstir í flokki í Hockenheim.
Michael Schumacher og Felipe Massa fremstir í flokki í Hockenheim. reuters

Michael Schumacher var í þessu að vinna þýska kappaksturinn í Hockenheim og Ferrarifélagi hans Felipe Massa varð annar. Höfðu þeir gríðarlega yfirburði á önnur lið í kappakstri sem var sá jafnleiðinlegasti á árinu. Þannig virtist þýskum áhugamönnum sama þótt fjórir landar þeirra væru að keppa og Schumacher ætti möguleika á að styrkja verulega stöðu sína í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra með því að saxa á forskot Fernando Alonso hjá Renault því stúkur Hockenheimbrautarinnar voru hálftómar.

Tilgáta Ferrariliðsins um að Kimi Räikkönen hjá McLaren hefði unnið ráspólinn með því að vera með óvenjulítið bensín á tönkunum reyndist rétt. Af þeim sökum höfðu Ferrarimenn engar áhyggjur af því þótt hann hæfi keppni á undan þeirra mönnum. Og höfðu greinilega enga ástæðu til að óttast því Räikkönen tók sitt fyrsta bensínstopp á tíunda hring af 67, 10 hringjum fyrr en bæði ökuþórar Ferrari og Renault.

Räikkönen þaut af stað og var búinn að byggja upp sex sekúndna forskot er hann tók sitt fyrsta stopp. Varð reyndar fyrir því að tapa talsverðum tíma, hátt í 10 sekúndum, í fyrsta þjónustustoppi sínu af þremur vegna erfiðleika við að skipta um vinstra afturdekk. Ólíklegt er að það hafi ráðið úrslitum þótt Räikkönen hafi að lokum aðeins verið 13 sekúndum á eftir Schumacher.

Sigur Schumachers er sá fjórði sem hann vinnur í Hockenheim og á sama tíma og hann er óstöðvandi og með engu ógnað átti Alonso í mesta basli í kappakstrinum, rétt eins og í tveimur síðustu mótum, Indianapolis og Frakklandi. Skorti bíl hans hraða alla helgina.

Massa jafnaði sinn besta árangur á árinu, varð einnig annar í Indianapolis, og komst í fjórða sinn á verðlaunapall á árinu.

Forskot Alonso og Renault minnkar

Með tvöföldum sigri Ferrari minnkaði bæði forskot Alonso í keppni ökuþóra og Renaultliðsins í keppni bílsmiða. Þar sem Alonso varð aðeins 5. á mark og Giancarlo Fisichella sjötti hefur forskot Alonso á Schumacher minnkað úr 17 stigum í 11 og forskot Renault á Ferrari minnkað úr 21 stigi í 10.

Hefur Alonso 100 stig í keppni ökuþóra og Schumacher 89. Renault hefur 149 stig í keppni bílsmiða og Ferrari 139, en sex mót eru eftir af vertíðinni.

Greinilegt þykir að Bridgestone hefur náð yfirhöndinni í keppni dekkjasmiða. Það þykir skýra að mestu mikinn framgang Ferrariliðsins í undanförnum mótum en Schumacher vann nú þriðja mótssigurinn í röð. Þó bendir árangur Räikkönen einnig til þess að Renaultliðið hafi að undanförnu sýnt of mikla íhaldssemi í herfræðinni. Í stað þess að sækja í Hockenheim eins og McLaren hefur Renault kosið að reyna verja stöðu sína í heimsmeistarakeppninni. Eigi sér ekki sinnaskipti stað þar á bæ blasir við að Schumacher og Ferrari taki fram úr Alonso og Renault.

Minnstu munaði að Alonso félli úr leik er hann lenti út úr brautinni og út í malargryfju er rúmir fimm hringir voru eftir. Tókst honum að halda velli og sæti sínu.

Á meðan Renaultmenn sleikja sárin fagnar Jarno Trulli hjá Toyota. Vegna mótorskipta í gær hóf hann keppni af öftustu rásröð en með góðri áætlun lauk hann keppni í sjöunda sæti, rétt á eftir Fisichella. Lokastigið vann svo Christian Klien á Red Bull, hans fyrsta stig frá í fyrsta móti ársins þar sem hann varð einnig áttundi á mark. Spurning er hvort þessi árangur náist ekki of seint til að hann eigi möguleika á að halda sæti hjá Red Bull á næsta ári.

Úrslitin í Hockenheim

Staðan í stigakeppni ökuþóra og bílsmiða

Räikkönen í forystu rétt eftir ræsingu í Hockenheim.
Räikkönen í forystu rétt eftir ræsingu í Hockenheim. reuters
Schumacher sigri hrósandi í Hockenheim.
Schumacher sigri hrósandi í Hockenheim. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert