Alonso neitar því að vera á förum frá McLaren

Hamilton (t.v.) og Alonso fagna tvöföldum sigri McLaren í Indianapolis.
Hamilton (t.v.) og Alonso fagna tvöföldum sigri McLaren í Indianapolis.

Heimsmeistarinn Fernando Alonso segist ætla að vera hjá McLaren til langframa og það þrátt fyrir undraverðan árangur liðsfélaga hans, nýliðans Lewis Hamilton.

Alonso sagði á blaðamannafundi í Magny-Cours í Frakklandi í dag, að allur orðrómur að undanförnu í þá veru að hann kynni að vera að leita að útgönguleið frá McLaren væri út í hött. Fyrir honum væri engin fótur.

„Það er útilokað að stöðva svona sögusagnir sem fjölmiðlar hafa verið að birta,“ sagði Alonso sem samdi til þriggja ára við McLaren, en undanfarin ár keppti hann fyrir Renault og varð heimsmeistari ökuþóra undanfarin tvö.

„Staðan er góð, ég á við engin vandamál að stríða og ég hef engin áform um að fara frá liðinu áður en samningurinn rennur út,“ segir Alonso.

Hann hefur unnið tvö mót í ár en er 10 stigum á eftir Hamilton í keppni ökuþóra. Hann vann síðustu tvö mót en hefur verið á verðlaunapalli í öllum sjö mótunum sem lokið er.

Fregnir hafa farið af meintri spennu milli liðsfélaganna en báðir segja, að vel fari á með þeim. Alonso staðfesti í dag, að þeir Hamilton hefðu gert með sér samkomulag að tala ekki um hinn við blaðamenn nema báðir væru viðstaddir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert