McLaren heldur áfrýjun refsingar í Búdapest til streitu

Hamilton bíður þess að Alonso aki af þjónustusvæðinu.
Hamilton bíður þess að Alonso aki af þjónustusvæðinu. ap

McLarenliðið hefur ákveðið að fylgja eftir áfrýjun refsingar sem liðið var beitt eftir tímatökurnar í Búdapest. Eftirlitsmenn Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) sviptu liðið stigum í kappakstrinum.

McLaren var talið hafa unnið gegn hagsmunum formúlu-1 með hvernig það framkvæmdi tímatökurnar. Umdeilt atvik kom þá upp er við bílskúr liðsins þar sem Lewis Hamilton tafðist fyrir aftan Fernando Alonso og missti fyrir vikið af tímahring.

McLaren þurfti að tilkynna innan klukkustundar hvort það ætlaði að nýta sér áfrýjunarrétt. Það gerði liðið en sagðist myndu fara vel yfir málið næstu daga og meta hvort formlega yrði látið á réttmæti ákvörðunar dómara FIA, sem Ron Dennis liðsstjóri segir hafa misskilið aðgerðir McLaren.

Hamilton vann kappaksturinn og Alonso varð fjórði en liðið fékk ekki að telja sér til tekna í keppninni um heimsmeistaratitil bílsmiða stigin 15, sem þeir annars öfluðu.

Dómararnir rannsökuðu málið og lágu yfir því klukkustundum saman. Niðurstaða þeirra seint á laugardagskvöldi var að Hamilton hefði verið „hindraður óþarflega“. Höfnuðu þeir öllum skýringum McLaren og Alonso. Sviptu þeir hann ráspólnum og færðu aftur í sjötta sæti á rásmarki, auk þess sem McLaren var svipt stigum sem ella kæmu í þess hlut í kappakstrinum.

Eftir er að ákveða hvenær áfrýjunardómstóllinn fær mál þetta til umfjöllunar og meðan teljast úrslit ungverska kappakstursins óstaðfest.

Dómstóllinn hefur verið kvaddur saman 13. september til að taka fyrir annað mál þar sem McLaren kemur við sögu; Ferrarinjósnirnar svonefndu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert