Spyker setur aðalhönnuð af

Brottvikning aðalhönnuðar Spyker virðist dularfull.
Brottvikning aðalhönnuðar Spyker virðist dularfull. reuters

Spykerliðið hefur vikið aðalhönnuði sínum John McQuilliam ótímabundið frá störfum en gerir enga grein fyrir því hvers vegna. McQuilliam hefur starfað hjá liðinu allar götur frá árinu 1991 er það hét Jordan.

Jordanliðið var nýlega orðið til sem keppnislið í formúlu-1 er McQuillam kom þar til starfa. Þar var hann orðinn tæknistjóri er Midland-fyrirtækið keypti liðið.

Hjá Midland var McQuillan gerður að yfirhönnuði og hélt hann því starfi eftir yfirtöku Spyker á liðinu í fyrra. Liðsstjórinn Colin Kolles mun hafa vikið honum frá í síðustu viku en hefur ekki viljað útskýra hvers vegna, t.d. hvort eitthvað samband sé á milli þess og að ný uppfærsla af keppnisbíl liðsins féll á árekstrarprófi í síðustu viku.

„Staða hans er til skoðunar af hálfu liðsins,“ var það eina sem Kolles vildi segja við vefsetrið autosport.com.

Spyker neyddist til að hætta við að taka B-bílinn í notkun í tyrkneska kappakstrinum í Istanbúl þar sem hann féll á árekstrarprófinu.

Sterkur orðrómur er um að fyrrverandi tæknistjóri Red Bull, Mark Smith, sé á leið til starfa hjá Spyker. Hann hefur áður starfað með núverandi tæknistjóra Spyker, Mike Gascoyne.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert