McLaren áfrýjar refsingunni ekki

Það stirndi á mótorheimili McLaren við Spa-brautina.
Það stirndi á mótorheimili McLaren við Spa-brautina. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson

McLarenliðið hefur ákveðið að áfrýja ekki refsingunni sem íþróttaráð Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) dæmdi það í fyrir viku. Var liðið rekið úr stigakeppni bílsmiða í formúlu-1 og sektað um 100 milljónir dollara fyrir aðild að umdeildu njósnamáli.

Tæplega 800 síður af hugverkum Ferrari, þ. á m. tæknigögn um keppnisbíl ítalska liðsins, fundust á heimili aðalhönnuðar McLaren, Mike Coughlan.

McLaren hefur staðfastlega haldið fram sakleysi af þeim ásökunum FIA að hafa nýtt sér gögnin við hönnun eigin keppnisbíls. Á rannsóknarstigi málsins notfærði FIA sér ekki boð McLaren um að sambandið sendi fulltrúa sína í verksmiðju liðsins til að rannsaka teikningar og ganga úr skugga um hvort svo væri.

Eftir að hafa vegið málið og metið í vikunni var það niðurstaða forsvarsmanna McLaren að það væri í þágu bestu hagsmuna formúlu-1 að láta staðar numið og halda málavafstri ekki áfram.

Þeir vilja losa sig við málið og horfa fram á veginn og einbeita sér að því að hjálpa ökuþórum sínum, Lewis Hamilton og Fernando Alonso, að vinna heimsmeistaratitil ökuþóra.

„Við erum á því að tími sé kominn til að láta þetta mikla ónæðismál heyra fortíðinni til. McLaren vill vinna kappakstur og heimsmeistaratitla,“ sagði Ron Dennis, liðsstjóri í dag.

„Það er okkar lán að hafa notið og njóta áfram óskoraðs stuðnings starfsmanna okkar, styrktarfyrirtækja og formúluunnenda um allan heim. Öllum þessum aðilum er áfram um að við einbeitum okkur algjörlega að því að vinna heimsmeistaratitil ökumanna í ár og mótin þrjú sem eftir eru,“ sagði Dennis einnig.

Segjast gallharðir á að hafa ekki notað gögn Ferrari

Í yfirlýsingu sem gefin var út af hálfu liðsins segir: „McLaren hefur tilkynnt FIA þá afstöðu sína að áfrýja ekki úrskurði íþróttaráðsins frá 13. september.

Þótt McLaren samþykki að það hafi verið brot á reglum formúlu-1 að Coughlan var með gögnin í fórum sínum staðhæfir liðið enn, að hann deildi engum upplýsingum úr þeim með öðrum verkfræðingum liðsins. Liðið er einnig gallhart á því að það naut þeirra á engan hátt á kappakstursbrautinni.

Það er ljós í forsendum úrskurðarins, að íþróttaráðið kemst að þeirri niðurstöðu að sú ásökun að starfsmaður McLaren hafi í heimildarleysi haft skjöl og leynilegar upplýsingar sé sönnuð.

Harma rafpósta ökuþóranna

Þrátt fyrir að engar sannanir þess efnis að upplýsingarnar voru yfirfærðar, prófaðar eða dreift meðal verkfræðingasveitarinnar (sem átti sér ekki stað), þá jafngildir þessi varsla broti á reglum.

Okkur til vandræða og sem ber að harma reyndist innihald rafpósta sem okkur var áður ókunnugt um, og liðið hefur engan veginn lagt blessun sína yfir, sýna að upplýsingar voru ekki bundnar við einn mann. Fyrir þetta brot á grein 151c var liðið beitt afar þungri refsingu.

Kjarni þessa máls er að þessar upplýsingar voru ekki notaðar til að hagnast á því í bílunum.

Með þetta að baki og í samráði við hluthafa okkar munum við endurskoða og styrkja frekar innanhússreglur og verklagsreglur,“ segir í yfirlýsingu McLaren.

Ferrari heimsmeistari bílsmiða

Með þessari ákvörðun McLaren, að áfrýja ekki úrskurði íþróttaráðs FIA, er Ferrari heimsmeistari ökuþóra. Eftir belgíska kappaksturinn í Spa-Francorchamps um síðustu helgi, þar sem liðið átti tvo fyrstu bíla á mark, getur BMW ekki lengur náð Ferrari að stigum í keppni bílsmiða.

Alonso og Hamilton fyrstir á mark í Monza. Í fyrsta …
Alonso og Hamilton fyrstir á mark í Monza. Í fyrsta sinn í sögunni átti McLaren tvo fyrstu bíla í mark á heimavelli Ferrari. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert