Ökumenn McLaren færðir aftur á rásmarki fyrir hindrun

Kovalainen (t.h.) og Hamilton hafa verið færðir aftur um fimm …
Kovalainen (t.h.) og Hamilton hafa verið færðir aftur um fimm sæti á rásmark í Sepang. mbl.is/mclarenf1

Lewis Hamilton og Heikki Kovalainen hjá McLaren hefur verið refsað fyrir að hindra aðra ökuþóra í tímatökunum í Sepang í morgun. Hafa þeir verið færðir aftur um fimm sæti hvor á rásmarki.

Vegna refsingarinnar leggur Kovalainen af stað í áttunda sæti og Hamilton í því níunda. Dómarar komust eftir nokkurra klukkustunda yfirlegu að þeirri niðurstöðu, að Hamilton hafi hindrað för Nick Heidfeld hjá BMW og Kovalainen hafi bæði hindrað hann og einnig Fernando  Alonso hjá Renault.

McLarenþórarnir voru að lulla heim í bílskúra á innhring eftir að hafa lokið sínum tímatökutilraunum. Það höfðu Heidfeld og Alonso ekki gert er Hamilton og Kovalainen og fleiri bílar urðu á vegi þeirra.

Talsmaður McLaren segir að liðið taki niðurstöðunni og muni ekki áfrýja henni.

Robert Kubica á BMW var skammt á eftir  McLarenbílunum á innhring og sagði sér hafa fundist Alonso skaðast meira á hindruninni. „Ég sá greinilega hvernig hringur Alonso var eyðilagður þar sem Kovalainen, held ég það hafi verið, hélt sig í keppnislínunni. Nick var aðeins heppnari því hann tafðist fyrir bremsusvæðið og komst því aftur inn á góða aksturslínu. En Alonso varð að bremsa innan línunnar og tapaði greinilega heilmiklum tíma. Þetta var tiltölulega hættulegt,“ sagði Kubica.

Vegna vítisins verður rásröðin á morgun sem hér segir, en Kazuki Nakajima tekur út akstursbrot frá í síðasta móti og færist úr 18. sæti í það 22.:

1. Massa Ferrari
2. Räikkönen Ferrari
3. Trulli Toyota
4. Kubica BMW
5. Heidfeld BMW
6. Webber Red Bull
7. Alonso Renault
8. Kovalainen McLaren
9. Hamilton McLaren
10. Glock Toyota
11. Button Honda
12. Coulthard Red Bull
13. Piquet Renault
14. Barrichello Honda
15. Vettel Toro Rosso
16. Rosberg Williams
17. Fisichella Force India
18. Bourdais Toro Rosso
19. Sato Super Aguri
20. Sutil Force India
21. Davidson Super Aguri
22. Nakajima Williams
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert