Alonso sagður hafa samið við Ferrari fyrir 2010

Fernando Alonso í Mónakó.
Fernando Alonso í Mónakó. ap

Þrálátur orðrómur þess efnis að Fernando Alonso hafi skrifað undir samkomulag að keppa fyrir Ferrari árið 2010 gekk í Mónakó um helgina. Hann hefur verið bendlaður við nokkur lið en sögur af Ferrariför hans hafa verið lífseigastar.

Minnt er á í þessu sambandi, að árið 2005 gekk þrálátur orðrómur þess efnis að Räikkönen hefði skuldbundið sig til að keppa fyrir Ferrari frá og með 2007. Sem síðar kom í ljós að átti við rök að styðjast. Sömuleiðis samdi Alonso árið 2005 um að keppa fyrir McLaren frá og með 2007.

Alonso varð heimsmeistari ökumanna með Renault 2005 og 2006 og ákvað síðan að spreyta sig með McLaren í fyrra. Í vertíðarlok var hann aðeins einu stigi frá titlinum, sem Kimi Räikkönen vann.

Meistarinn fyrrverandi fann sig engan veginn í herbúðum McLaren og fékk t.a.m. ekki að segja neitt um keppnisáætlun. Hugurinn leitaði því í aðrar áttir og fékk hann sig lausan og gekk að nýju til liðs við  Renault.

Franska liðið hefur ekki getað lagt honum til samkeppnisfæran bíl ennþá þótt framfarir hafi átt sér stað. Er hann með aðeins 9 stig í keppni ökuþóra og liðsfélagi hans Nelson Piquet engin. Aðalstyrktarfyrirtækið, hollenski bankinn ING, er sagður óhress með stöðuna og krefst betri árangurs eigi hann að styðja Renault lengur en í ár. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert