Hamilton biðst afsökunar

Hamilton og Räikkönen stíga upp úr bílum sínum í Montreal.
Hamilton og Räikkönen stíga upp úr bílum sínum í Montreal. reuters

Lewis Hamilton hjá McLaren bað Kimi Räikkönen afsökunar á því að hafa eyðilagt fyrir honum kappaksturinn í Montreal. Ók Hamilton aftan á kyrrstæðan Ferrarifák Räikkönen í bílskúrareininni í lok þjónustuhlés beggja.

Räikkönen nam staðar þar sem rautt ljós logaði við enda bílskúrareinarinnar til marks um að ökumenn mættu ekki yfirgefa þjónustusvæðið.

Eftir því tók Hamilton of seint og renndi beint aftan á svo að báðir bílar löskuðust nógu mikið til þess að keppninni var lokið af beggja hálfu. Voru þá búnir 20 hringir af 70 en fram að hléinu hafði Hamilton forystu í kappakstrinum.

Räikkönen var greinilega brugðið og jafnframt gramur því hann gekk til Hamiltons er þeir voru komnir út úr bílunum og benti stíft á rauða ljósið.

Hamilton sagðist hafa áttað sig of seint á því að rauða ljósið logaði.

„Ég sá tvo ökumenn takast á fyrir framan mig í reininni og skyndilega hemluðu þeir. Sá ég skyndilega rauða ljósið en er ég bremsaði var það um seinann.

Ég bað Kimi afsökunar hafi ég eyðilagt fyrir honum keppnina, svona lagað kemur fyrir. Ég hefði fremur kosið að hvorugur okkar hefði fallið úr leik, við vorum svo hraðskreiðir,“ sagði Hamilton.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert