Brawn: Alonso vill í Ferrari

Alonso undir grámyglulegum himni í Silverstone.
Alonso undir grámyglulegum himni í Silverstone. reuters

Fernando Alonso yrði tekið opnum örmum hjá Honda en hann óskar þess þó helst sjálfur að komast til starfa hjá Ferrari. Það segir Ross Brawn, liðsstjóri Honda, sem hefur tvö laus sæti í liðinu á næsta ári.

Samningur bæði Jenson Button og Rubens Barrichello rennur út í lok yfirstandandi vertíðar.

Orðrómur var á kreiki í Magny-Cours í Frakklandi fyrir röskum hálfum mánuði, að Honda gæti orðið næsti vinnustaður Alonso. Brawn segir að hvert einasta lið formúlunnar hefði áhuga á þjónustu heimsmeistarans fyrrverandi.

„Honda er vitaskuld þar engin undantekning,“ segir Brawn við svissneska akstursíþróttablaðið Motorsport Aktuell. „Fernando er afburða ökumaður sem allir vildu í bílnum sínum hafa,“ bætir fyrrverandi tæknistjóri Ferrari við.  

Brawn mun hafa skírskotað til Ferrari er hann segir ennfremur í samtalinu: „Ég veit til hvaða liðs hann vildi fara, það vita allir. Veruleikinn er sá, að áður en við getum átt alvöru viðræður við hann verður að leiða til lykta stöðuna gagnvart Ferrari.“ 

Verði Alonso fáanlegur segir Brawn það engu skipta hverjar lyktir urðu í sambúð hans og stjórnenda McLaren í fyrra. „Það yrðu engin vandamál, alls engin; sannleikur er að það yrði stórkostleg áskorun að fá hann.

Allir sem hafa starfað með honum hafa hann í miklum metum. Það voru sambúðarörðugleikar hjá McLaren augljóslega en hjá Renault hafa menn hann í hávegum,“ segir Brawn.

Alonso var meðal áhorfenda í Vínarborg er Spánverjar urðu Evrópumeistarar …
Alonso var meðal áhorfenda í Vínarborg er Spánverjar urðu Evrópumeistarar í fótbolta. ap
Alonso í bílskúr Renault milli aksturslota á æfingum í Silverstone …
Alonso í bílskúr Renault milli aksturslota á æfingum í Silverstone fyrir helgi. reuters
Alonso á Renaultinum í návígi við Lewis Hamilton hjá McLaren …
Alonso á Renaultinum í návígi við Lewis Hamilton hjá McLaren í franska kappakstrinum í Magny-Cours. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert