Schumacher ók á gangandi vegfaranda

Ökufærni Schumacher var ábótavant er hann ók á bílasalann.
Ökufærni Schumacher var ábótavant er hann ók á bílasalann. ap

Talskona Michaels Schumacher hefur staðfest frásögn bresks blaðs þess efnis að heimsmeistarinn fyrrverandi hafi ekið á gangandi vegfaranda, bílasala, í Lydd í Kent í Englandi.

Schumacher var á hraðferð út á flugvöll til að ná á einkaþotu sína. Ók hann Fiat Ducato bíl. Atvikið átti sér stað sl. sunnudag.

„Það síðasta sem maður á von á rólegu eftirmiðdegi er að Michael Schumacher keyri mann niður,“ segir bílasalinn, Martin Kingham, við The Mirror, sem gekk í vegarkanti er heimsmeistarinn fyrrverandi ók á hann.

„Hann var mjög skapillur og spurði hvern djöfulinn ég hafi verið að gera á veginum. Hann var afundinn, eins og þetta hafi verið mér að kenna. Ég hringdi því í lögregluna,“ bætir Kingham við.

„Þetta var ótrúlegt, hann var að taka fram úr tveimur öldruðum konum á litlum Fíat er hann keyrði aftan á mig. Þegar ég reis upp og sá hver þar var á ferð hélt ég að ég væri ringlaður eftir höggið,“ segir Kingham einnig.

Bílasalinn slasaðist ekki alvarlega, marðist einungis á fótum og hruflaðist. Löreglan lét Schumacher blása í vínandamæli en eftir skýrslutöku fékk hann að fara leiðar sinnar. „Hann baðst aldrei afsökunar, steig bara aftur um borð í bílinn og virti mig ekki viðlits. Hann var hrokafullur,“ segir Kingham.

Lögreglan í Kent segir engin eftirmál verða af atvikinu.

Schumacher á stjórnborði Ferrari í Hockenheim á dögunum.
Schumacher á stjórnborði Ferrari í Hockenheim á dögunum. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert