Alonso: Hef ekkert á móti Hamilton

Ljósmyndari færði Alonso að gjöf í dag mynd þar sem …
Ljósmyndari færði Alonso að gjöf í dag mynd þar sem Schumacher óskar honum til hamingju sem heimsmeistara eftir kappaksturinn í Sao Paulo 2006. ap

Fernando Alonso segir vonir sínar um að Felipe Massa vinni heimsmeistaratitil ökuþóra í formúlu-1 um helgina tákni enga óvild í garð  Lewis Hamilton. Það sé einungis til marks um að hann vilji ekki að sitt fyrrverandi lið, McLaren, hrósi sigri.

Alonso ók í fyrra fyrir McLaren og undi hag sínum illa í herbúðum liðsins. Fékk hann sig um síðir lausan undan þriggja ára samningi eftir aðeins eitt ár svo hann gæti snúið aftur til  Renault.

Mjög hefur verið vitnað til þess undanfarið að Alonso vildi fremur sjá Massa sem meistara en Hamilton. Meistarinn fyrrverandi útskýrði þá afstöðu sína í dag.

Er hann var spurður í Sao Paulo af hverju hann virtist eiga persónulegar sakir óuppgerðar við Hamilton svaraði Alonso: „Nei, þetta hefur ekkert með hann að gera. Ég hef margsagt að ég ber mikla virðingu fyrir Lewis og við ræðumst við.

Hið sama var uppi á teningnum í fyrra. Við deildum ökumannaherberginu, spjölluðum saman og engin vandamál voru okkar í millum. En ég held ég muni alltaf kjósa að annað lið en McLaren vinni“.

Alonso segir lítinn vafa leika á því að Hamilton muni ná þeim árangri sem hann þurfi um helgina til að landa titlinum.

„Lewis er augljóslega líklegastur. Hann er sjö stigum á undan og klári hann kappaksturinn dugar það honum til að vinna titilinn. Af fimm fremstu er hann nógu hraðskreiður til að vinna titilinn. Lewis mun því vinna hann,“ sagði Alonso.


Alonso og Hamilton fagna góðum árangri í fyrra sem liðsfélagar …
Alonso og Hamilton fagna góðum árangri í fyrra sem liðsfélagar hjá McLaren. ap
Liðsfélagarnir í fyrra, Hamilton (t.v.) og Alonso, styrkja vöðvana.
Liðsfélagarnir í fyrra, Hamilton (t.v.) og Alonso, styrkja vöðvana.
Alonso og Hamilton sem liðsfélagar í fyrra.
Alonso og Hamilton sem liðsfélagar í fyrra.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert