Massa á ráspól í Sao Paulo og Hamilton fjórði

Massa á leið til ráspóls í Sao Paulo.
Massa á leið til ráspóls í Sao Paulo. ap

Felipe Massa hjá Ferrari vann ráspól brasilíska kappakstursins en keppinautur hans um heimsmeistaratitil ökuþóra, Lewis Hamilton hjá McLaren, komst ekki framar en í fjórða sæti. Milli þeirra urðu Jarnio Trulli á Toyota og Kimi Räikkönen hjá Ferrari.

Massa var í sérflokki í þriðju og síðustu lotu tímatökunnar. Hamilton átti slaka fyrri umferð og í seinni tímahringnum komst hann ekki ofar en í fjórða sæti. Var á endanum hálfri sekúndu lengur með hringinn, en á þessu stigi er ekki vitað hverjar keppnisáætlanir titilkandídatanna tveggja eru. Það kemur ekki í ljós fyrr en út í kappaksturinn er komið.

Ráspóll Massa er sá sjötti í ár og fimmtándi á ferlinum. Til að verða heimsmeistari, á heimavelli í Sao Paulo, þarf hann að vinna kappaksturinn og vona að Hamilton verði ekki meðal fimm fyrstu í mark. 

Trulli vann mjög óvænt annað sætið eftir að liggja í flensu framan af vikunni. Miðað við frammistöðu Toyota í ár gæti það bent til þess að lítið hafi verið af bensíni í bílnum og hann taki sitt fyrsta þjónustustopp snemma.

Heikki Kovalainen hjá McLaren varð fimmti, eða næst á eftir Hamilton og getur varið hann úr því sæti. Á sömu rásröð, á sjötta rásstað, verður Fernando Alonso hjá Renault.

Báðir ökuþórar Toro Rosso komust í lokalotuna. Sebastian Vettel varð sjöundi og Sebastien Bourdais níundi. Milli þeirra varð Nick Heidfeld á BMW, en athygli vekur, að félagi hans, Robert Kubica, komst annan kappaksturinn í röð ekki í lokalotuna.

Hann hefur keppni þrettándi og má mikið vinna á til að missa ekki þriðja sætið í stigakeppni ökuþóra til Räikkönen. Einu sæti aftar verður David Coulthard hjá Red Bull  í sínum síðasta kappakstri í formúlu-1. 

Williamsliðinu gekk vel á æfingum í morgun og gær og virtist til alls líklegt. Liðið galt hins vegar afhroð í tímatökunum þar sem Kazuki Nakajima varð aðeins 16. og Nico Rosberg 18.

Niðurstaða tímatökunnar varð sem hér segir:

Röð Ökuþór Bíll Lota 1 Lota 2 Lota 3 Hri.
1. Massa Ferrari 1:11.830 1:11.875 1:12.368 17
2. Trulli Toyota 1:12.226 1:12.107 1:12.737 15
3. Räikkönen Ferrari 1:12.083 1:11.950 1:12.825 19
4. Hamilton McLaren 1:12.213 1:11.856 1:12.830 14
5. Kovalainen McLaren 1:12.366 1:11.768 1:12.917 17
6. Alonso Renault 1:12.214 1:12.090 1:12.967 18
7. Vettel Toro Rosso 1:12.390 1:11.845 1:13.082 20
8. Heidfeld BMW 1:12.371 1:12.026 1:13.297 18
9. Bourdais Toro Rosso 1:12.498 1:12.075 1:14.105 16
10. Glock Toyota 1:12.223 1:11.909 1:14.230 24
11. Piquet Renault 1:12.348 1:12.137 13
12. Webber Red Bull 1:12.409 1:12.289 13
13. Kubica BMW 1:12.381 1:12.300 13
14. Coulthard Red Bull 1:12.690 1:12.717 16
15. Barrichello Honda 1:12.548 1:13.139 14
16. Nakajima Williams 1:12.800 9
17. Button Honda 1:12.810 9
18. Rosberg Williams 1:13.002 8
19. Fisichella Force India 1:13.426 9
20. Sutil Force India 1:13.508 9
Massa fagnaði ráspólnum í heimabæ sínum vel.
Massa fagnaði ráspólnum í heimabæ sínum vel. ap
Hamilton varð aðeins fjórði í slagnum um ráspólinn í Sao …
Hamilton varð aðeins fjórði í slagnum um ráspólinn í Sao Paulo. ap
Coulthard syngur svanasöng sinn úr fjórtánda sæti á rásmarki.
Coulthard syngur svanasöng sinn úr fjórtánda sæti á rásmarki. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert