Alonso stefnir á titil 2009

Alonso á Renaultinum í lokamóti ársins, í Sao Paulo.
Alonso á Renaultinum í lokamóti ársins, í Sao Paulo. ap

Fernando Alonso segir það vera markmið sitt á komandi keppnistíð, 2009, að vinna heimsmeistaratitil ökuþóra í formúlu-1 þriðja sinni. Það fer svo eftir gengi Renault og styrk keppnisbílsins hvort hann verði að breyta því markmiði þegar út í slaginn er komið.

Alonso varð í fimmta sæti í keppni ökuþóra í ár eftir mjög kröftuga frammistöðu á seinni helmingi vertíðarinnar. Átti hann afar brösuga byrjun en vann síðan tvö mót á lokasprettinum og vann fleiri stig í síðustu sjö mótunum en nokkur annar ökumaður.

„Takmarkið er að bæta sig á næsta ári. Ég hef ekki efni á því að mæta til leiks með því hugarfari að ég muni ekki sigra. Takmark mitt og liðsins er að vinna titilinn. Takmarkið er kristaltært, þó svo breyta þurfi því ef til vill er líður á árið.

En nú, í desember, er markmiðið alveg ljóst. Ég ætla að leggja til atlögu við titilinn á næsta ári. Við bættum okkur mjög á lokasprettinum í ár og ég verð áfram hjá Renault. Þegar hlutirnir gerast rétt líður manni eins og heima hjá sér. Og Renault er alvörugefið lið þar sem mér líður vel,“ sagði Alonso við blaðamenn á Spáni í dag.

Alonso segist sáttur við að keppnisbíll hans á næsta ári verði ekki fullklár fyrr en undir lok vetrarprófana, ef það megi verða til að hann beri sigurorð af keppinautum sínum.

„Á næsta ári verður titilslagurinn seinna á ferðinni en áður og því seinna sem bíllinn verður klár því betra. Einhverjir bílar verða góðir í febrúar og í apríl verða allir aðrir búnir að herma eftir þeim. Því seinna sem bíllinn kemur til skjalanna því betra.

Í raun verður bíllinn sem við munum frumsýna 20. janúar í litlu skyldur þeim bíl sem teflt verður fram í fyrsta mót,“ sagði Alonso.

Alonso (l.t.v.) tekur fram úr Kovalainen hjá McLaren í fyrstu …
Alonso (l.t.v.) tekur fram úr Kovalainen hjá McLaren í fyrstu beygjunum í lokamóti ársins. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert