McLaren vísað úr keppni í þremur mótum skilorðsbundið

Hamilton ekur framhjá stjórnborði McLaren.
Hamilton ekur framhjá stjórnborði McLaren. mbl.is/mclarenf1

 McLarenliðinu hefur verið refsað fyrir „lygamálið“ svonefnda í ástralska kappakstrinum í Melbourne. Er liðinu bönnuð þátttaka í þremur næstu mótum, skilorðsbundið. Ástæðan er sú að liðið þykir hafa komið óorði á formúlu-1 með málinu.

Þetta var niðurstaða fundar íþróttaráðs Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) í París í dag. Sagði í niðurstöðum þess, að með tilliti til hversu opinskátt og hreinskilnislega Martin Whitmarsh liðsstjóri McLaren hafi tjáð sig við ráðið, og vegna umskipta í starfsemi liðsins hafi þó viðeigandi að skilorðsbinda refsinguna.

Formlega er McLaren rekið úr þremur mótum, en fullnustu refsingarinnar er frestað um eitt ár. Að þeim tíma liðnum fellur refsingin niður haldi liðið skilorðið og gerist ekki brotlegt gegn 151 grein c í íþróttareglum FIA næstu 12 mánuðina.

Upphaf málsins verður rakið til atviks í fyrsta móti ársins, í Melbourne. Lewis Hamilton fékk skipun af stjórnborði liðsins að hleypa Jarno Trulli hjá Toyota fram úr sér er öryggisbíll var í brautinni. Trulli hafði ekið út fyrir brautina og Hamilton þá runnið fram úr.

Eftirlitsdómarar FIA úrskurðuðu að Trulli hafi brotið reglur með framúrakstrinum og felldu hann úr verðlaunasæti, sem Hamilton hlaut í arf.

Fyrir eftirlitsdómurunum hélt Hamilton því fram að skipan íþróttastjóra McLaren, Dave Ryan, að hann hefði engin fyrirmæli fengið um að hleypa Trulli fram úr sér en Toyotaþórinn greip tækifærið er Hamilton vék út í kant og hægði á.

Hamilton hafði hins vegar skýrt fjölmiðlum frá því strax eftir kappaksturinn - og áður en hann var kallaður fyrir dómarana - að hann hafi hleypt Trulli fram úr samkvæmt fyrirmælum liðsstjórnarinnar.

Það, ásamt upptökum af talstöðvarsamtölum hans við stjórnborðið, sem dómararnir skoðuðu þó ekki strax í Melbourne, varð til þess að lygarnar komu í ljós. Málið var því tekið upp viku seinna í Malasíu. Þar voru Hamilton og Ryan kallaðir fyrir dómarana en héldu við sinn keip og vildu ekki draga fyrri orð sín til baka.

Lyktir urðu þær, að hann var strikaður út úr úrslitum kappakstursins í Melbourne og refsingin yfir Trulli ómerkt. Endurheimti hann því þriðja sætið.

Whitmarsh mætti einsamall fyrir íþróttaráðið í París í dag, hvorki með lögfræðinga við hlið sér eða Hamilton. Á þeirri tæpu klukkustund sem hann var inni á fundinum ítrekaði hann afsakanarbeiðnir sínar fyrir það sem gerst hafði.

„Okkur urðu á mistök, við höfum beðið FIA og almenning afsökunar og bíðum niðurstöðunnar,“ sagði Whitmarsh við blaðamenn er hann kom út af fundinum.

Þegar hún svo lá fyrir þakkaði Whitmarsh ráðinu fyrir að gefa sér tækifæri til að svara spurningum og útskýra mál sitt. „Við erum þess meðvitaðir að við gerðum alvarleg mistök í Ástralíu og  Malasíu og ég var því mjög ánægður að geta beðist afsökunar á þeim eina ferðina enn.  Það gladdi mig líka að geta fullvissað fulltrúa íþróttaráðsins um að við höfum gert viðhlítandi ráðstafanir hjá okkur sem eiga að koma í veg fyrir að svona lagað endurtaki sig,“ sagði Whitmarsh.

Whitmarsh ræðir við blaðamenn í Malasíu eftir að Hamilton var …
Whitmarsh ræðir við blaðamenn í Malasíu eftir að Hamilton var strikaður út úr úrslitunum í Melbourne. reuters
Stjórnborð McLarenliðsins.
Stjórnborð McLarenliðsins. mbl.is/mclarenf1
Hamilton getur nú glaðst yfir því að þurfa ekki að …
Hamilton getur nú glaðst yfir því að þurfa ekki að sitja af sér þrjú mót. Hér fagnar hann góðum árangri í Barein. mbl.is/mclarenf1
Hamilton á ferð í kappakstrinum í Barein.
Hamilton á ferð í kappakstrinum í Barein. mbl.is/mclarenf1
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert