FIA rannsakar reynsluakstur Schumacher

Eitthvað virðist Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) hafa að athuga við reynsluakstur Michaels Schumacher á tveggja ára gömlum Ferrari formúlubíl í Mugello á Ítalíu í gær.

Talsmaður sambandsins segir við þýsku fréttastofuna DPA, að það muni taka til formlegrar athugunar hvort aksturinn brjóti í bága við bann við reynsluakstri meðan á keppnistímabili stendur.

Athygli sambandsins beinist m.a. að dekkjunum sléttu sem voru undir bílnum en slík dekki voru ekki undir keppnisbílum formúlunnar 2007. Að sögn Ferrari var þar um að ræða dekk undan GP2-bíl en ekki dekk eins og nú eru undir formúlubílunum.

Schumacher þarf að sækja um nýtt keppnisleyfi

Schumacher hefur ekki réttindi sem stendur til að keppa í formúlu-1. Þarf hann að fá nýtt leyfi útgefið til að geta keppt í Evrópukappakstrinum síðar í ágúst.

Samkvæmt reglum rennur keppnisleyfi út í lok hverrar vertíðar og þurfa formúluþórar að fá nýtt skírteini útgefið ár hvert.

Í tilviki Schumacher er nánast um formsatriði að ræða því hann uppfyllir það skilyrði að hafa tekið þátt í 15 mótum á síðustu þremur árum frá því hann hafði síðast leyfi. Það gerði hann síðast ár sitt í keppni, 2006.


Schumacher á ferð á 2007-bílnum í Mugello í gær.
Schumacher á ferð á 2007-bílnum í Mugello í gær. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert