Schumacher gerir samning við Mercedes

Michael Schumacher.
Michael Schumacher. Reuters

Þýska blaðið Bild fullyrti á fréttavef sínum, að Michael Schumacher, sjöfaldur heimsmeistari í kappakstri, hefði gert árs samning við keppnislið Mercedes um að aka fyrir liðið á næsta keppnistímabili. 

Schumacher ók síðast fyrir Ferrari en hætti keppni fyrir þremur árum. Hann hefur verið ráðgjafi hjá Ferrari síðan en fékk leyfi hjá liðinu fyrir skömmu til að gera samning við Mercedes ef svo bæri undir.  

Bild segir, að Schumacher, sem verður  41 árs í janúar, fái greiddar 7 milljónir evra, jafnvirði 1,3 milljarða króna, fyrir að sitja við stýri í Mercedes bíl þegar næsta keppnistímabil hefst í Barein 14. mars. 

Þá verða liðnir 1239 dagar frá því Schumacher keppti síðast í kappakstri. Það var í Sao Paulo í Brasilíu. Félagi Schumachers í Mercedes liðinu verður  Nico Rosberg.

Til stóð að Schumacher settist aftur undir stýri hjá Ferrari í sumar eftir að ökuþórinn Felipe Massa slasaðist en vegna meðsla í hálsi varð ekkert af því.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert