Fyrsti tvöfaldi sigur Ferrari í fyrsta móti í sex ár

Alonso gengur af palli með sigurlaunin í Barein.
Alonso gengur af palli með sigurlaunin í Barein. reuters

Fernando Alonso fagnaði í Barein í dag og sagði daginn „mjög sérstakan“ eftir að hafa ekið til sigurs í fyrsta formúlumóti ársins og í sínum fyrsta kappakstri fyrir Ferrari. Liðið fagnaði tvöföldum sigri, hinum fyrsta í fyrsta móti ársins frá 2004.

Þetta var jafnframt fyrsti mótssigur Alonso frá í japanska kappakstrinum 2008 og hann var í sjöunda himni í mótslok. Og síðast vann Ferrari tvöfaldan sigur árið 2008, í franska kappakstrinum í Magny-Cours. 

„Mjög sérstakur dagur fyrir mér. Að komast á topp verðlaunapallsins á ný er sérstök tilfinning og eitthvað enn sérstakari sem liðsmaður Ferrari. Það er mikil saga á bak við liðið og ökuþór sem keppir fyrir Ferrari hefur miklar væntingar.

Það er ekki hægt að byrja samstarfið betur. Þetta er besta lið í heimi, við höfum lagt mjög hart að okkur í allan vetur, mannskapurinn gerði mjög góða hluti við reynsluakstur vetrarins. 

Við [ökumennirnir] höfum ekkert gert til þessa - við vorum bara núna að vinna fyrsta mót ársins. Að verða í fyrsta og öðru sæti eru úrslit sem mannskapurinn í Maranello verðskuldar því hann hefur unnið nótt sem nýtan dag við að búa til þennan frábæra bíl handa okkur.

Þennan fyrsta sigur helga ég öllum mannskapnum heima á Ítalíu, vélvirkjunum hér og di Montezemolo forseta liðsins. Úrslitin eru mjög jákvæð,“ sagði Alonso.

Hann sagði að vertíðin væri löng og vildi ekki vera með neina spádóma um úrslit keppnistíðarinnar. Fyrstu mótin réðu ekki úrslitum, þau noti ökumenn og lið til að læra á og aðlagast nýjum reglum, dekkjunum og keppnisáætlunum. Gott væri að fá vænan slurk af stigum í sarpinn en framundan væri mikil vinna og menn þyrftu að halda vel á spöðunum.


Alonso fagnar sigri í Barein.
Alonso fagnar sigri í Barein. reuters
Alonso sigrar í Barein.
Alonso sigrar í Barein.
Alonso fagnar sigri í Barein.
Alonso fagnar sigri í Barein. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert