Vettel heimsmeistari - sá yngsti í sögu formúlu-1

Vettel fagnar sigri og titli í Abu Dhabi.
Vettel fagnar sigri og titli í Abu Dhabi. reuters

Sebastian Vettel hjá Red Bull var í þessu að vinna kappaksturinn í Abu Dhabi og um leið landaði hann, nokkuð óvænt,  heimsmeistaratitli ökuþóra. Er hann yngsti meistari sögunnar, aðeins 23 ára.  Fernando Alonso, sem var með mikla forystu fyrir mótið, varð vegna herfræðimistaka Ferrari aðeins sjöundi og Mark Webber hjá Red Bull áttundi.

Fyrir kappaksturinn snerist allt um hvor þeirra yrði meistari, Alonso eða Webber, og hvort Vettel myndi liðsinna félaga sínum í þeim slag. Sjálfur var hann 15 stigum á eftir Alonso í stigakeppninni og sjö á eftir Webber.

Og langleiðina fram í kappaksturinn var ómögulegt að segja hvernig titilkeppnin færi vegna þess að nokkrir ökumenn áttu eftir að skipta um dekk - möguleikar Alonso og Webbers á titlinum voru lengi vel enn fyrir hendi að komast framar þótt útlitið væri dökkt.

Úrslitin aldrei eftir bókinni

En aldrei fer formúlukappakstur eins og fyrirfram er við búist; það sannaðist eina ferðina enn í Abu Dhabi, þar sem einu mest spennandi tímabili í 60 ára sögu íþróttarinnar lauk með mjög svo óvæntum hætti. Úrslit eru aldrei ráðin fyrr en köflótta flaggið fellur. 

Vettel vann með þessu sitt fimmta mót á árinu sem verið hefur brösugt hjá honum þótt hann hafi unnið keppnina um ráspólinn tíu sinnum og jafnoft staðið á verðlaunapallinum. Hann fagnaði vel og innilega er keppni var lokið og er vel að titlinum kominn.

Titilkeppninni lauk með því að hann hlaut 256 stig, Alonso 252, Webber 242 og Lewis Hamilton hjá McLaren 240.   

Í öðru og þriðja sæti í Abu Dhabi urðu McLarenþórarnir Hamilton og Jenson Button. Fjórði varð Nico Rosberg hjá Mercedes og í fimmta og sjötta sæti Renaultþórarnir Robert Kubica og Vitaly Petrov. Er það næstbesti árangur nýliðans rússneska í ár en sem er meir um vert, hann hélt Alonso fyrir aftan sig 40 síðustu hringi kappakstursins.

Alonso komst aldrei fram úr Petrov

Alonso kom út úr dekkjastoppi sínu rétt fyrir aftan Petrov og á undan Webber, sem stoppað hafði áður. Margar tilraunir til að komast fram úr Renaultþórnum heppnuðust aldrei og smám saman dvínuðu því vonir Alonso um þriðja titilinn.

Athygli vekur hversu snemma Alonso stoppaði, en skýringin var sú að stjórar liðsins ákváðu að Alonso skyldi skipta um dekk strax á eftir Webber. Sá síðarnefndi var stoppaði fyrr en ráð var fyrir gert þar sem dekkin voru illa á sig komin. En með því að halda fast við áætlun sína í stað þess að bíða öllu lengur með skipti - eins og fremstu menn - sat Ferrari uppi með Alonso vel fyrir aftan miðju keppenda.


Köflótta flaggið fellur á Vettel.
Köflótta flaggið fellur á Vettel. reuters
Sigurstökk á verðlaunapallinum í Abu Dhabi.
Sigurstökk á verðlaunapallinum í Abu Dhabi. reuters
Stuðningsmenn Ferrari voru súrir á svip í stúkum Abu Dhabi …
Stuðningsmenn Ferrari voru súrir á svip í stúkum Abu Dhabi undir lok kappakstursins. reuters
Saman sitja titilkandídatarnir fyrir á mynd fyrir keppni í Abu …
Saman sitja titilkandídatarnir fyrir á mynd fyrir keppni í Abu Dhabi; Alonso (l.t.v.),Webber og Vettel. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert