Alonso vill kaflaskipti í Barcelona

Fernando Alonso er á því að vatnaskil verði að eiga sér stað í Barcelona um helgina hvað getu Ferrarifáksins varðar. Árið hefur farið illa af stað hjá Ferrari þótt Alonso hafi unnið heppnissigur í Malasíukappakstrinum.

Alonso segir að sér hafi tekist að „takmarka tjónið“ í fyrstu fjórum mótunum. Þrátt fyrir að vera með lítt samkeppnisfæran bíl í höndunum er hann við upphaf mótanna í Evrópu  aðeins 10 stigum á eftir efsta manni - Sebastian Vettel hjá Red Bull - í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna.

Ferrari mætir með margskonar uppfærslur í bílnum í Barcelona og vonar að þær dugi til að minnka og jafnvel brúa bilið í toppliðin. Sumar voru prófaðar við reynsluakstur í Mugello í síðustu viku og aðrar verða prófaðar á æfingum föstudagsins í Barcelona.

Alonso staðfestir þessar vonir en segir útilokað að segja fyrirfram um hvernig takast muni til. „Við treystum á að framfarir eigi sér stað hjá okkur en að því munum við ekki komast - og þá hve stórt skrefið verður - fyrr en í tímatökunum á laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert