Ný hindrun á vegi Webbers

Koalabjörninn fyrir framan bíl Webbers.
Koalabjörninn fyrir framan bíl Webbers. mbl.is/Mark Webber

Aðeins nokkrum dögum eftir að hafa verið stöðvaður á sigurför í Malasíukappakstrinum varð ný hindrun í veginum er stöðvaði för hans. Að þessu sinni var það Kóalabjörn.

Atvikið átti sér stað á heimaslóðum Webbers í Ástralíu í vikunni og liðsfélaginn Sebastian Vettel - sem braut á Webber í Malasíu - var víðs fjarri. 

„Stöðvaður á ferð minni, hann er í leiðangri þessi litli,“ sagði Webber á tístsíðu sinni þar sem hann birti mynd af birninum á ferð yfir götuna fyrir framan bíl hans.  Nam hann staðar og hleypti birninum yfir.

Mörg kaldhæðnisleg ummæli fylgdu í kjölfarið frá unnendum Webbers og skírskotuðu til atvika í Malasíukappakstrinum þar sem Vettel hunsaði margítrekuð liðsfyrirmæli og lagði til atlögu við Webber á lokahringjunum og rændi hann sigri.

„Góður ertu, Vettel hefði stigið á hinn pedalann (auðvitað fyrir mistök),“ skrifaði einn stuðningsmaður Webbers. Annar bætti við: „Hann tók þó ekki fram úr þér“.

Webber sneri heim til Ástralíu eftir Malasíukappaksturinn til að kæla sig niður eftir deilurnar við Vettel í Sepang og safna kröftum fyrir næsta mót, í Sjanghæ í Kína um miðjan apríl.

Fáleikar á verðlaunapapallinum í Sepang. Webber (2. f.h.) og Vettel, …
Fáleikar á verðlaunapapallinum í Sepang. Webber (2. f.h.) og Vettel, yst til hægri, eins og freðnar ýsur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert