Rosberg réði ríkjum - 30 árum á eftir pabba

Mónakókappaksturinn  stóð undir nafni. Allt sem farið getur úrskeiðis í keppni í formúlu-1 fer úrskeiðis í Mónakókappakstrinum. Murphy gamli hefði haft ánægju af því að horfa á, lögmál hans lifir góðu lífi í furstadæminu við Miðjarðarhaf. Nico Rosberg lét hann þó ekki slá sig út af laginu og réði ríkjum á götunum þar, enda búsettur í bænum.

Þrátt fyrir langan feril í formúlu-1 var þetta aðeins annar mótssigurinn á ferli Rosberg og vart gat hann kosið betri vettvang en Mónakó, skrautfjöður formúlu-1 þótt keppnin þar sé sjaldan spennandi; mesta spennan ríkir venjulega um það hvort og hvað mun fara úrskeiðis. 

Rosberg vann sinn og Mercedesliðsins fyrsta sigur í fyrra og bætist annar sigur nú í safn beggja. Óhætt er að segja að hann hafi verið kóngur kappakstursins því hann ók hraðast á öllum æfingunum þremur svo og í tímatökunum í gær. Gerði aldrei minnstu mistök og var aldrei honum ógnað í dag; slapp ætíð fljótt frá keppinautunum eftir tvær innkomur öryggisbíls og síðan langt stopps vegna ákeyrslu á öryggisvegg.

Felipe Massa hjá Ferrari var ábyrgur fyrir fyrstu innkomu öryggisbílsins, missti vald á bílnum í lok upphafs- og lokakaflans og skall harkalega á öryggisveg. Allt eins og endurrit af eins óhappi á æfingum í gærmorgun. Á þessu atviki tapaði Lewis Hamilton hjá Mercedes mest því hann féll úr öðru sæti í það fjórða er ökumenn notuðu tækifærið og skutust inn að bílskúr til að fá ný dekk. Drollaði hann á innleiðinni til að skapa Rosberg meira svigrúm en það reyndist svo honum sjálfum dýrkeypt.

Keppnin var síðan stöðvuð á 46. hring eftir hörku árekstur milli Pastor Maldonado hjá Williams og Max Chilton hjá Marussia í beygju sem kennd er við tóbaksbúð er þar stendur, rétt fyrir sprettinn á sundlaugarsvæðinu. Flaug Maldonado á öryggisgirðinguna sem laskaðist svo talsverðan tíma tók að gera við og ganga tryggilega frá henni aftur.

Í öðru sæti í mark varð Sebastian Vettel á Red Bull og Mark Webber liðsfélagi hans fjórði en báðir græddu sæti á óförum Hamiltons. Eins og oft vill verða í Mónakó var stöðubarátta lítil sem engin þar til að dekkjastoppum kom. En seinni hlutann var meira fjör í þeim efnum og sá Sergio Perez hjá McLaren um mestu skemmtunina. Með ótrúlegri dirfsku - fífldirfsku á köflum - lagði hann til atlögu við hvern ökumanninn á fætur öðrum og vann sæti af bæði  liðsfélaga sínum Jenson Button og síðar Fernando Alonso. 

Að því búnu var Perez komin upp í fimmta sæti en í stað þess að láta sér það duga reyndi hann að læsa klónum í næsta mann á undan, Kimi Räikkönen hjá Lotus. Sú viðureign tók tíma en endaði með ósköpum fyrir báða, er Perez virtist gleyma að hægja á sér fyrir beygjuhlekkinn er komið er niður á hafnarsvæðið. Tókst honum ekki að víkja er Räikkönen varðist, rakst bæði utan í vegrið og aftan á Räikkönen sem endaði með því að stýrisstífur gáfu sig og ekki um annað að ræða en hætta keppni. Vegna skemmda varð Räikkönen einnig að skjótast inn að bílskúr og í stað þess að vera fimmti allan kappaksturinn, þar til alveg í lokin, endaði hann keppnina í tíunda sæti.

Mörg önnur tilþrif sáust og meðal annars þurfti Alonso að sætta sig við að aftur var tekið fram úr honum síðar, en þar voru á ferð Adrian Sutil á Force India og Jenson Button á McLaren. Var hann þá fallinn niður í níunda sæti en endaði framar, eða í sjöunda sæti, vegna afleiðinga samstuðs Perez og Räikkönen. Ferrari fagnaði stórt í síðasta móti, á Spáni fyrir hálfum mánuði, en frá Monako fer liðið með skottið á milli lappanna og fremur litla uppskeru.

30 árum síðar

Nico Rosberg er sonur finnska ökumannsins Keijo Erik (Keke) Rosberg sem varð heimsmeistari ökumanna í formúlu-1 árið 1982. Svo skemmtilega vill til að hann hrósaði einu sinni sigri í Mónakó, árið 1983, eftir að hafa orðið fimmti í tímatökum, eða fyrir nákvæmlega 30 árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert