Vætan hamlar Williams

Felipe Massa á Williamsbílnum í tímatökunni í Sepang í dag.
Felipe Massa á Williamsbílnum í tímatökunni í Sepang í dag. mbl.is/afp

Felipe Massa gefur til kynna að hann og lið hans eigi eftir að læra margt um Williamsbílinn til æfinga, tímatöku og keppni í rigningu. Bæði hann og liðsfélaginn Valtteri Bottas voru slegnir úr leik í annarri lotu af þremur í rennvotri tímatökunni í Sepang í dag. 

Massa segir að væta hafi til þessa reist skorður við því hvað náð hefur mátt úr Williamsbílnum. Telur hann mun meira búa í bílnum en sýnt var í dag en báðir ökumennirnir tóku þá áhættu að nota millidekk í annarri lotu tímatökunnar í stað fullra regndekkja.

Massa og Bottas áttu einnig í basli með bílinn í vætu á áströlsku kappaksturshelginni. Vonast sá fyrrnefndi að ekki rigni á morgun í Malasíu.

„Í þurrki erum við venjulega að slást um sæti meðal sex fremstu og bíllinn virkar þá vel. En í bleytu og votviðri vantar á veggripið og bíllinn virkar óstöðugur, skríður mjög og það er eitthvað sem við verðum að ráða bót á,“ segir Massa sem hefur keppni af 13. rásstað á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert