Óhress með máttleysi Ferrarifáksins

Kimi Räikkönen með Daniel Ricciardo í skottinu í Barein.
Kimi Räikkönen með Daniel Ricciardo í skottinu í Barein. mbl.is/afp

Kimi Räikkönen kveðst fremur óhress með máttleysi Ferrarifáksins og segir suma keppinautana vera í „öðrum gæðaflokki“. Hann náði aðeins tíunda sæti í kappakstrinum í Barein um síðustu helgi.

Eftir að hafa klárað tímatökuna í sjötta sæti gerði Räikkönen sér vonir um pallsæti í Barein. En fljótlega kom í ljós að hann skorti hraða með þeim afleiðingum að hann dróst fljótt og hratt aftur úr.

Og þrátt fyrir að hann legði sig allan fram varð hann að gera sér tíunda sætið að góðu, einu aftar en liðsfélagi hans Fernando Alonso náði.

Í aðdraganda vertíðar var álitið að Räikkönen og Alonso væru hugsanlegir kandídatar til heimsmeistaratitil ökumanna. Að þremur mótum loknum - sem Mercedesliðið hefur drottnað - viðurkennir meistarinn frá 2007, að Mercedesbílarnir séu knúnir vél sem sé í öðrum gæðaflokki en Ferrarivélin.

„Okkur vantaði bílhraða á öllum svið. Vorum of hægir á löngu beinu köflunum og skorti vængpressu, en samt voru bílarnir alls ekki ómeðfærilegir. Þá vantar bara ögn af vængpressu, hraða og fleiri hestöfl. Annar Force Indias bíllinn [knúinn Mercedesvél] tók mig á útleið úr áttundu beygju og það var eins og hann væri í allt öðrum gæðaflokki,“ segir Räikkönen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert