Akstursstíllinn hentaði ekki

Räikkönen fær ekki dekkin hvorki til að virka í kuklda …
Räikkönen fær ekki dekkin hvorki til að virka í kuklda eða vætu. mbl.is/afp

Kimi Räikkönen er á því að akstursstíll hans hafi ekki hentað Ferrarifáknum í Sjanghæ og því hafi hann átt svo erfitt uppdráttar í kínverska kappakstrinum. Lauk hann keppni í  áttunda sæti eftir að hafa lagt af stað úr því ellefta.

Lítið fór fyrir Räikkönen í keppninni á sama tíma og liðsfélagi hans Fernando Alonso slóst um toppsætin og ók 59 sekúndum fyrr yfir marklínuna. Hann varð á endanum þriðji.

Räikkönen segist hafa náð miklum krafti úr bílnum á ferskum dekkjum en fljótlega hafi dregið úr fjöri bílsins þar sem hann átti erfitt með að halda hita í dekkjunum.

„Ég held þetta hafi líklega meira að gera með akstursstíl minn svo og hið kalda veður. Ég fékk því ekki dekkin til að virka sem skyldi og sjálfsagt er sætið því afleiðing af kuldanum, eiginleikum brautarinnar og aksturstækni minni,“ sagði Räikkönen.

„Ég held ég gangi ekki hart að dekkjunum og erfitt er því að fá þau til að vinna í kulda og vætu. Það hefur verið erfitt í mörg ár að ná góðri virkni í þau. Í dag virtust þau bara virka splunkuný en svo seig gripið úr þeim. Þarf maður þá að hægja á sér og þá kólna dekkin bara enn frekar. Allt verður óviðráðanlegt.

Þetta er eitthvað sem allir hata en það er engin töfralausn og ég get ekki breytt aksturstækninni eftir aðstæðum. Við verðum bara að finna lausn á þessu“.

Kimi Räikkönen á ferð í Sjanghæ.
Kimi Räikkönen á ferð í Sjanghæ. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert