Hamilton vann sinn 25. sigur

Lewis Hamilton hjá Mercedes var í þessu að vinna kínverska kappaksturinn, og það mjög örugglega. Liðsfélagi hans Nico Rosberg átti erfiðari dag en vann sig á endanum upp í annað sætið. Þriðji varð svo Fernando Alonso hjá Ferrari og er þetta fyrsta pallsæti Ferrari frá í fyrra.

Þetta var jafnframt þriðji sigur Hamiltons í röð og hans 25. á ferlinum. Hefur hann aldrei áður á ferlinum unnið þrjú mót í röð. Þá vann Mercedes tvöfaldan sigur þriðja mótið í röð en fara verður áratug aftur í tímann til að finna dæmi þess, eða frá því Ferrari drottnaði hvað mest árið 2004. 

Daniel Ricciardo hjá Red Bull varð fjórði og gerði tilraunir til að ná þriðja sætinu af Alonso á rúmlega síðustu 10 hringjunum en náði ekki alveg að draga hann uppi í lokin. Liðsfélagi Ricciardo, Sebastian Vettel, varð fimmti og mátti þola einu sinni enn að vera beðinn að víkja fyrir Ricciardo.

Því tók heimsmeistarinn þungt í talstöðinni og varð ekki við fyrirmælum af stjórnborði en fékk ekki ráðið við meiri hraða Ricciardo sem dró hann uppi og sigldi að lokum fram úr. Að endingu munaði 24 sekúndum á þeim. 

Næstum mínútu munaði og á Ferrarifélögunum Alonso og Kimi Räikkönen sem varð áttundi í mark og 59 sekúndum á eftir. 

Þótt keppnin um sigurinn hafi engin verið þá var kappaksturinn út í gegn um að ræða spennani bardaga um annað til fimmta sætið þar sem framangreindir ökumenn komu við sögu, að undanskildum Hamilton og Räikkönen. Nær allir beittu þeir sömu herfræðinni og tóku þrjú dekkjastopp. Það sem hlýtur að valda keppinautum Hamiltons áhyggjum er að hann notaði manna minnst af bensíni sem sýnir að talsvert meiri hraði býr í Mercedesbílnum en hann þurfti að sýna á ferð sinni til sigurs. 

Kyvat enn með stig

Rússneski nýliðinn Daniil Kyvat hjá Toro Rosso varð í tíunda og síðasta stigasætinu í Sjanghæ. Þar með hefur hann unnið stig í þremur mótum af fjórum. Er það mjög góður árangur hjá nýliða en í Barein var hann aðeins einu stigi frá sæti, í því ellefta.

Felipe Massa hjá Williams náði góðri ræsingu og skaust fram úr mörgum en ók utan í Alonso á leið inn í fyrstu beygju. Við það urðu skemmdir í hjólafestingum því í hans fyrsta stoppi ætlaði aldrei að takast að skipta um og festa vinstra afturdekk hans. Við það féll Massa úr fimmta sæti í það síðasta og eftir það komst hann aldrei í tæri við stigasæti.

Þótt félagi hans Valtteri Bottas fengi Rosberg inn í sig á svipuðum slóðum hélst bíll hans gangandi alla leið og kláraði hann kappaksturinn sjöundi. Með öðrum árum lagði hann hinn reyndar landa sinn Räikkönen að velli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert