Williams: Tímasettum tilraunir ranglega

Felipe Massa hjá Williams í Silverstone í dag.
Felipe Massa hjá Williams í Silverstone í dag. mbl.is/afp

Williamsliðið misreiknaði sig illilega í fyrstu lotu tímatökunnar í Silverstone í dag með þeim afleiðingum að hvorugur ökumaður liðsins komst áfram í aðra og þriðju lotu.

Við þessu gekkst yfirverkfræðingur liðsins,  Rob Smedley, eftir tímatökuna. Veður breyttist mjög meðan á lotunni stóð og var Williamsliðsins of seint að bregðast við þornandi brautum.

Fyrir bragðið hafnaði Valtteri Bottas í 17. sæti og Felipe Massa í því átjánda. Færast báðir fram um tvö sæti vegna refsinga annarra ökumanna.

„Við erum með góðan bíl í höndum og því er það svekkjandi að hafna í 17. og 18. sæti,“ sagði Smedley. Við áttuðum okkur ekki á því hversu hratt rigningin var að skella á, misreiknuðum okkur. Það er ekki afsökun heldur mistök sem mega ekki endurtaka sig.“

Hann sagði að eftir sem áður væri takmarkið að klára keppnina í stigasæti og afla sem flestra stiga í samanburði við helstu keppinautana í stigakeppni bílsmiða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert