Räikkönen svekktur

Räikkönen í tímatökunum í Silverstone.
Räikkönen í tímatökunum í Silverstone. mbl.is/afp

Kimi Räikkönen segir það hafa verið „hörmung“ að keppni hans í breska kappakstrinum í Silverstone skyldi ljúka á fyrsta hring. Óhapp hans á Wellington-kaflanum leit í fyrstu út fyrir að vera stóralvarlegt en hann slapp lítt meiddur.

Räikkönen ók út úr brautinni í Aintree-beygjunni en Ferraribíllinn tókst á loft er hann kom aftur inn á brautina. Við það missti Räikkönen stjórn á honum, allt með þeim afleiðingum að hann skall harkalega á öryggisveggjum.

„Því miður lauk keppni minni á fyrsta hring, eftir góða ræsingu. Ég var kominn í keppni um 11. sæti eftir að hafa tekið af stað í því 17. Mig rak út úr brautinni í fimmtu beygju og hlýt að hafa lent á brautarbrík er ég reyndi að komast aftur inn á. Missti ég svo stjórnina og hafnaði á öryggisvegg. Það var miður því tilfinningin fyrir bílnum hafði lagast til muna í gær og ég var staðráðinn í að gera mitt besta til að vinna sem flest stig.

Ég er virkilega svekktur yfir því hvernig fór en nú ætla ég bara að horfa fram á veginn, þetta óhapp heyrir sögunni til og ég einbeiti mér í staðinn að næsta móti, í Þýskalandi,“ sagði Räikkönen í gærkvöldi.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert