Massa með Ferrari og Red Bull í sigtinu

Felipe Massa er bjartsýnn á möguleika Williamsliðsins.
Felipe Massa er bjartsýnn á möguleika Williamsliðsins. mbl.is/afp

Felipe Massa segist vongóður um að Williamsliðinu takist á seinni helmingi keppnistíðarinnar að komast fram úr Ferrari og Red Bull í keppninni um heimsmeistaratitil bílsmiða.

Williams er í fjórða sæti sem stendur, þremur stigum á eftir Ferrari og 65 á eftir Red Bull. Eftir miklar framfarir í bílþróuninni hefur Massa fyllst það mikilli bjartsýni, að nú telur hann framangreind tvö lið innan seilingar.

„Við þurfum alltaf að hugsa um að verða betri. Okkur hefur farið fram, skref fyrir skref og erum að gera góða hluti í bílþróuninni,“ sagði Massa í Hockenheim í dag, en þar fer þýski kappaksturinn í formúlu-1 fram á sunnudag.

„Í síðustu þremur mótum höfum við verið öflugri en Red Bull og Ferrari. Og sé hraði okkar meiri því skyldum við þá ekki geta slegist við þessi lið?“ sagði Massa.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert