Lauda: Vorum taugaveiklaðir

Niki Lauda stendur með Hamilton í þrætunni um liðsfyrirmæli Mercedes.
Niki Lauda stendur með Hamilton í þrætunni um liðsfyrirmæli Mercedes. mbl.is/afp

Niki Lauda, stjórnarformaður Mercedesliðsins, segir að Lewis Hamilton hafi haft fullan rétt til þess að hunsa fyrirmæli liðsins og víkja ekki fyrir liðsfélaga sínum Nico Rosberg í ungverska kappakstrinum.

Rosberg var á mýkri dekkjum þegar umdeild liðsfyrirmæli voru gefin og átti eftir að stoppa einu sinni til dekkjaskipta. Hamilton átti aftur á móti ekki eftir að stoppa. Til að herfræði Rosberg gengi upp vildu stjórnendur liðsins að Hamilton hleypti honum fram úr og kölluðu svo ítrekað upp í talstöðinni. Virti ökumaðurinn það að engu.

Lauda, sem þrisvar varð heimsmeistari í formúlu-1, er á því að liðsfyrirmælin hafi verið mistök.

„Ég verð að verja liðið,“ sagði Lauda, spurður um álit hans á uppákomunni í Hungaroring. „Liðið var undir gríðarlegu álagi því kappaksturinn var því mjög erfiður, ekki spurning. Hann var öllum öðrum ólíkur, með öryggisbíl í byrjun og svo bleytu. Á einnar mínútu, eða jafnvel nokkurra sekúndna fresti, varð að taka nýjar og nýjar ákvarðanir. 

Í þessu spennuástandi var  Lewis sagt að hann ætti að hleypa Nico fram úr því hann var á leið í dekkjastopp. Afstaða Lewis er sú að hann hefði hleypt Nico fram úr ef hann hefði verið á DRS-svæði, innan við sekúndu á eftir. En Nico komst aldrei það nærri honum.

Ég skil því vel hvers vegna Lewis spurði hvers vegna hann ætti að stoppa á miðri braut til að hleypa liðsfélaganum fram úr. Hann er í keppninni um titilinn líka. 

Að mínu viti gerði Lewis það rétta. Og hvers vegna voru fyrirmælin gefin, það átti sér stað í taugaveikluninni, við vorum að reyna að vinna upp það sem tapast hafði,“ segir Lauda.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert