Ökumenn Mercedes á teppið

Hamilton og Rosberg í návígi.
Hamilton og Rosberg í návígi. mbl.is/afp

Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes, segir að hann muni kalla ökumenn liðsins til fundar við sig í tilefni af liðsfyrirmælum sem gefin voru út í ungverska kappakstrinum en hunsuð.

Nico Rosberg var á ferð í kjölsogi Lewis Hamilton fyrir lokastopp sitt og bað stjórnborð liðsins Hamilton – sem ekki átti eftir að stoppa aftur  – að víkja og hleypa Rosberg fram úr svo keppnisherfræði hans mætti ganga upp.

Hamilton hunsaði ítrekuð talstöðvarfyrirmæli og sagðist eftir kappaksturinn hafa verið undrandi á fyrirmælunum.

„Við þurfum að setjast niður og ræða málið og greina stöðuna á þeim augnablikum sem Lewis var beðin að hleypa Nico fram úr. Þetta munum við gera í rólegheitum og af yfirvegun og vinna okkur út úr málinu,“ segir Wolff.

Það eru svo mörg atriði sem hafa áhrif á svona ákvörðun og við verðum að komast til botns í því hvort hún var rétt eða röng og eyða ruglingi og misskilningi,“ bætir hann við.

Hann segir að þótt Rosberg hafi spurt hvers vegna ekki hafi verið vikið fyrir honum hafi það ekki verið hann sem átti frumkvæðið að fyrirmælunum.

„Ég bað ekki um þetta, það var liðið sem tjáði mér að hann myndi víkja og hleypa mér fram úr,“ segir Rosberg.

Hamilton varðist atlögum Rosberg í keppni um þriðja sætið og minnkaði með þvíæ forskot Rosberg í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna í 11 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert