Villeneuve gagnrýnir Rosberg

Jacques Villeneuve.
Jacques Villeneuve. mbl.is/reuters

Jacques Villeneuve, fyrrverandi heimsmeistari í formúlu-1, heldur því fram, að Nico Rosberg hafi reynt að „eyðileggja“ fyrir Lewis Hamilton í ungverska kappakstrinum.

Rosberg sat fastur fyrir aftan liðsfélaga sinn hringina fyrir lokastopp sitt og skipaði stjórnborð liðsins Hamilton - sem átti ekki eftir að stoppa aftur - að víkja og hleypa Rosberg fram úr.

Með því að hleypa Rosberg fram úr hefði herfræði hans gengið upp en Hamilton hunsaði ítrekuð talstöðvarköll liðsstjóranna og neitaði að víkja.

Í talstöðinni heyrðist Rosberg spyrja hvers vegna honum var ekki hleypt fram úr og það gagnrýnir fyrrverandi meistari Villeneuve.

„Það var hvorki vit né nokkur skynsemi í þeirri spurningu því það var augljóst að með því að hleypa Nico fram úr hefði Hamilton tapað tíma,“ segir Villeneuve í samtali við bresku útvarpsstöðina  BBC Radio 5 live. „Það hefði ekki hjálpað Nico til sigurs því hann var þegar að missa máttinn úr dekkjunum og var tveimur hringjum seinna í raun orðin hæggengari en  Lewis.

Þess vegna kvartaði og vældi Nico því allt sem fyrir honum vakti var að eyðileggja kappaksturinn fyrir Lewis, en það gekk ekki eftir.“

Heimsmeistarinn frá 1997 bætti við: „[Rosberg] vissi að dekkin voru orðin máttlaus. Hann hefði komist fram úr Lewis og hægt á honum og stuðlað að því að hann yrði af helling af stigum. Það hefði auðveldað honum að keppa til sigurs en  [Daniel] Ricciardo var bara hraðskreiðari. Nico hefði líklega unnið Lewis, en ekki meira.“

Þótt Rosberg sé áfram með forystu í titilkeppninni er Villeneuve á því að dramatíkin í undanförnum mótum eigi eftir að hjálpa Hamilton. „Lewis er orðinn vanur því að vinna sig út úr mótlæti. Og hann virðist bregðast betur við þegar hlutir ganga úr skorðum, því hann er orðinn vanur því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert