Häkkinen spáir uppgangi hjá Räikkönen

Räikkönen á ferð í Ungverjalandi.
Räikkönen á ferð í Ungverjalandi. mbl.is/afp

Mika Häkkinen, fyrrverandi heimsmeistari í formúlu-1, er á því að landi hans Kimi Räikkönen hjá Ferrari muni verða mun betri á seinni helmingi vertíðarinnar en á þeim fyrri.

Frá því hann sneri aftur til Ferrari eftir síðasta keppnistímabil hefur Räikkönen rækilega fallið í skuggann af liðsfélaga sínum, Fernando Alonso.

Alonso er í fjórða sæti í keppni ökumanna eftir 11 mót og tvö pallsæti undir belti, en til samanburðar er Räikkönen í 12. sæti og besti keppnisárangur hans sjötta sæti.

Häkkinen segist hafa tekið eftir því að Räikkönen hafi bætt sig statt og stöðugt en hann hafi lengi átt í erfiðleikum með að finna hentugt jafnvægi í uppsetningu bílsins. Það horfi til betri vegar og því muni ekki á löngu líða uns hann verður jafnfær Alonso.

„Þetta er spurning um tíma, Kimi er allt eins hraðskreiður og Alonso þegar hann nær að setja bílinn almennilega upp,“ segir Häkkinen.

Räikkönen náði sínum besta árangri í ár í síðasta móti, kappakstrinum í Búdapest. Misheppnuð dekkjataktík Ferrari olli því að hann sat eftir í fyrstu lotu tímatökunnar og hóf því keppni í 17. sæti. Ætla má að hann hefði getað klárað framar hefðu þau mistök ekki verið gerð.

Häkkinen segir það hafa verið áfall að fylgjast með þessu atviki og hefur miklar efasemdir um ákvarðanatöku á stjórnborði Ferrari.

„Þetta voru augljós mistök, og af þeirri gerðinni sem aldrei ættu að eiga sér stað hjá liði á borð við Ferrari,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert