Mercedes eins og stýrislaus bátur

Ross Brawn meðan hann var við stjórnvölinn hjá Mercedes.
Ross Brawn meðan hann var við stjórnvölinn hjá Mercedes. mbl.is/afp

Væri Ross Brawn enn við stjórnvölinn hjá Mercedesliðinu hefði ekki komið til árekstursins milli Nico Rosberg og Lewis Hamilton í belgíska kappakstrinum. Sú er skoðun fyrrverandi Jordanstjórans Eddie Jordan.

Rosberg ók utan í Hamilton á öðrum hring með þeim afleiðingum að afturdekk sprakk og hann féll á endanum úr leik. Skemmdi hann sömuleiðis fyrir sjálfum sér með tjóni á framvæng.

Jordan er á því að stöðugleika skorti í stjórn Mercedes eftir að Brawn yfirgaf liðið fyrir hálfu öðru ári. Þar ráða nú ríkjum Toto Wolff og Paddy Lowe.

„Ég skelli skuldinni á liðið,“ segir Jordan. „Þeir segjast leifa ökumönnunum að keppa innbyrðis en gera það ekki í raun því í Ungverjalandi var Rosberg tjáð að hann gæti tekið fram úr Hamilton og Hamilton var sagt að hleypa honum fram úr en gerði það ekki. Hvernig er hægt að halda því fram að engar liðsskipanir séu í gildi en eru það samt? Þetta er tómt bull.“

Jordan skírskotaði til stjórnunar Brawn í Malasíukappakstrinum í fyrra er hann fyrirskipaði Rosberg ítrekað að halda stöðu sinni fyrir aftan Hamilton sem var þriðji í stað þess að taka fram úr. Með því hafi hann tryggt liðinu hámarks stigafjölda sem í boði var því báðir bílar voru á síðustu dropunum og hraðari akstur og átök hefðu getað valdið því að tankarnir tæmdust alveg áður en í mark væri komið.

„Ég man vel er Ross sagði við Rosberg í Malasíu í fyrra, „nei þú mátt ekki taka fram úr Lewis“. Og bætti við að hefði Ross Brawn verið við stjórnvölinn í Belgíu hefðu bílar Mercedes orðið í fyrsta og öðru sæti í mark.

Jordan segir að þeir Rosberg og Hamilton hafi of frítt spil hvor um sig í þeirra persónulegu sókn eftir frægð og frama. „Þetta er veikleiki. Það eru fínir náungar sem stjórna liðinu en þeir hafa ekki reynsluna og hafa ekki Ross. Því eru þeir sem stendur eins og stýrislaus bátur. Tveir ökumenn sem eru eins og spilltir strákar ráða ferðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert