Webber: Mercedes virkar ekki sem lið

Mark Webber á blaðamannafundi í Smáralind.
Mark Webber á blaðamannafundi í Smáralind. mbl.is/Jim Smart

Mark Webber, fyrrum ökumaður Red Bull, segir að það skorti samvirkni hjá Mercedesliðinu þar sem ökumenn berjast um eigin frægð og frama.

„Ástandið er erfitt hjá Mercedes þar sem samskipti ökumannanna eru ekki upp á það besta,“ segir Webber á heimasíðu Red Bull liðsins. „Það verður fróðlegt að fylgjast með, ekki aðeins það sem eftir er vertíðarinnar heldur er spurningin hvort þeir geti ekið fyrir sama lið í framtíðinni. Er í lagi fyrir liðið að hafa þá saman árið 2015?

Hver ætlar að ná liðinu saman aftur? Er það fólkið sem borgar Niki [Lauda] og Toto [Wolff] laun? Séu ökumennirnir ekkert að hlusta á það sem þeir segja verður þeim þá stefnt fyrir stóru bossana hjá  Mercedes, sem borga þeim laun fyrir að vinna sem lið?“

Webber, sem hætti keppni í formúlu-1 við vertíðarlok í fyrra og sneri sér að sportbílakappakstri,  bætir við: „Sem stendur virkar Mercedes ekki sem lið, það er eins og ökumennirnir fari sína leið sjálfir“.

Hann er á því að innbyrðis keppni og rígur Hamiltons og Rosberg eigi eftir að aukast. „Stigakeppni liðanna er í höfn og því bara titill ökumanna sem þarf að slást um. Þeir einbeita sér bara að því að vinna hvorn annan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert