Nýr Ferraristjóri afskrifar vertíðina

Marchionne í fyrra með þáverandi ökumönnum Ferrari, Felipe Massa (t.v.) …
Marchionne í fyrra með þáverandi ökumönnum Ferrari, Felipe Massa (t.v.) og Fernando Alonso.

Sergio Marchionne, sem tekur við æðstu stjórn Ferrarifyrirtækisins 13. október segir í dag að afskrifa beri vertíðina í formúlu-1. „Vandinn er í vélinni,“ segir hann um afleitt gengi Ferrariliðsins í ár.

Marchionne segir skýringuna fyrst og síðast að finna í vél bílanna, kraftur hennar og virkni hafi verið ónóg.  „Það er deginum ljósara að við eigum við vélarvanda að stríða. Árið í ár verður ekki góð vertíð fyrir Ferrari, við getum slakað á,“ segir hann.

Marchionne staðfesti á blaðamannafundi í gær, að Ferrariliðið yrði sjálfstætt og óháð Fiat-Chrysler bílsmíðasamsteypunni, en sjálfur er hann forstjóri hennar.

Ferrari hefur ekki unnið einn einasta kappakstur í ár og ökumennirnir eru víðsfjarri í titilkeppni þeirra. Fernando Alonso er fimmti og 117 stigum á eftir efsta manni,  Nico Rosberg hjá Mercedes. Kimi Räikkönen er tíundi með aðeins 41 stig úr 13 mótum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert