Takmark Williams titilslagur 2016

Finnski ökumaðurinn Valtteri Bottas hjá Williams á ferð í Monza …
Finnski ökumaðurinn Valtteri Bottas hjá Williams á ferð í Monza fyrir 10 dögum. mbl.is/afp

Forsvarsmenn Williamsliðsins telja nú hafa það styrkan grunn að það geti með stigvaxandi framförum blandað sér í toppslag formúlu-1 og keppt um titla árið 2016.

Williams hefur farið stórlega fram í ár eftir algjörlega misheppnað keppnistímabil í fyrra. Hefur því þannig séð tekist einna best að laga sig að breytingum á drifrás bílanna sem komu til framkvæmda ár; með minni vélum og forþjöppuðum.

Williams hefur hlotið 177 stig í 13 mótum og fimm sinnum hafa ökumenn þess staðið á verðlaunapalli á árinu. Tæknistjórinn Pat Symonds er á því að með styrkum mannafla sínum og óbreyttum reglum fyrir næsta ár hafi liðið allt til að bera til að bæta sig frekar á næstu árum og vinna titla á ný.

„Ég held við getum keppt aftur um titla. Þeir sem hafa verið að vinna þá undanfarin ár hafa haft úr miklum fjármunum að spila. Það gæti orðið erfitt að yfirstíga það en takist okkur það verða sigrar mun sætari,“ segir Symonds.

Hann segir að þrátt fyrir að vera með hina drottnandi Mercedesvél í bílum sínum þá felist hinn góði árangur í ár og hinar miklu framfarir ekki síður í vel heppnuðum undirvagni og yfirbyggingu Williamsbílsin. Á því sviði hafi liðinu farið mjög fram og eflst.

Williams fagnaði síðast titlum árið 1997 er liðið vann bæði titil ökumanna sem bílsmiða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert