Kviksögur slæmar fyrir Ferrari

Liðsmenn Ferrari tilfæra keppnisbíl Fernando Alonso í Singapúr.
Liðsmenn Ferrari tilfæra keppnisbíl Fernando Alonso í Singapúr. mbl.is/afp

Fernando Alonso hjá Ferrari ber sig aumlega vegna kviksagna þess efnis að þeir Sebastian Vettel hjá Red Bull kunni að hafa sætaskipti.

Þetta „hjálpar ekki upp á sakirnar fyrir lið mitt,“ segir Alonso, en lausafregn þessi á uppsprettu sína á Ítalíu og komst á kreik í byrjun vikunnar.

Vettel brást snögglega við henni og sagði um kjaftasögu að ræða sem honum væri með öllu óviðkomandi. Hið sama gerði Alonso í Singapúr í dag en um helgina fer þar næsti kappakstur í formúlu-1 fram. Hefur framtíð Alonso hjá Ferrari verið misserum saman milli tannanna á fólki, ekki síst fjölmiðlum.

„Það er leitt að orðróm sem þessum skuli komið á kreik á Ítalíu. Það er miður því þetta er ekki til að hjálpa upp á sakirnar fyrir Ferrari. Ég ber mikla virðingu fyrir Ferrari og reyni að stuðla að góðu andrúmslofti meðal liðsmanna, í þeim tilgangi að binda mannskapinn saman. Þess þurfum við og ég skil því ekki tilganginn í þessum kviksögum sem spretta upp á Ítalíu,“ sagði Alonso.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert