Lauda: Hamilton hverrar krónu virði

Lewis Hamilton fagnar sigri í lokahöfn í Singapúr.
Lewis Hamilton fagnar sigri í lokahöfn í Singapúr. mbl.is/afp

Niki Lauda, einn af yfirmönnum Mercedesliðsins, segir að Lewis Hamilton hafi sýnt það í kappakstrinum í Singapúr og sannað að hann sé hverrar sinnar krónu virði.

Með sjöunda sigrinum í ár og þeim öðrum í röð hafi hann og sýnt hvers vegna honum er borgað jafn hátt kaup og raun ber vitni.

Hamilton virtist langleiðina að tryggja sér sigur er forskot hans þurrkaðist upp er öryggisbíll var kvaddur út í brautina um miðbik kappakstursins. Með grimmri keyrslu tókst honum þó aftur að byggja upp gott forskot - 25 sekúndur - á 10-15 hringjum og kom út úr þrija og síðasta dekkjastoppinu í öðru sæti, rétt á eftir Sebastian Vettel, þegar örfáir hringir voru eftir.

Vettel gat engar varnir veitt enda á gatslitnum dekkjum og smeygði Hamilton sér fram úr honum von bráðar á gripgóðum nýjum hjólbörðum. Með sigrinum endurheimti hann forystuna í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna, en í þeim slag hafði liðsfélagi hans Nico Rosberg setið í efsta sæti frá í maí.

„Hann er hverrar þeirrar krónu virði sem hann kostar okkur, það get ég sagt þér,“ sagði Lauda við Sky-sjónvarpsstöðina. „Hann sigraði því hann ók stórfenglega. Sótti hart, hart og grimmt.“

Mercedesstjórinn Toto Wolff var heldur ekki spar á yfirlýsingarnar. „Þetta var undravert. Nú eru dagar Lewis Hamilton. Þetta eru þær stundir sem menn átta sig á hversu frámunalega góður hann er og þetta skilur að stjörnur og ofurstjörnur.“

Lewis Hamilton réði lögum og lofum í Singapúr.
Lewis Hamilton réði lögum og lofum í Singapúr. mbl.is/afp
Lewis Hamilton á leið til sigurs á Mercedesbílnum í Singapúr.
Lewis Hamilton á leið til sigurs á Mercedesbílnum í Singapúr. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert