Meina Vettel að prófa Ferraribíl

Sebastian Vettel (t.h.) og Kimi Räikkönen, hugsanlegur nýr liðsfélagi hans, …
Sebastian Vettel (t.h.) og Kimi Räikkönen, hugsanlegur nýr liðsfélagi hans, mæta til leiks í Sjotsí. mbl.is/afp

Fyrirsvarsmenn Red Bull liðsins hafa sett stólinn fyrir dyrnar og tekið fyrir að Sebastian Vettel  fái að spreyta sig við reynsluakstur í Abu Dhabi við vertíðarlok.

Liðseigandinn Dietrich Mateschitz staðfestir að samningsskyldum verði ekki létt af Vettel fyrr en kveðið er á um í samningnum.

Vettel skýrði frá því á kappaksturshelginni í Suzuka í Japan fyrir tæpum hálfum mánuði að hann myndi hætta keppni fyrir Red Bull við vertíðarlok. Þótt ekki hafi verið skýrt frá því í höfuðstöðvum Ferrari að þar yrði hann í koju í framtíðinni mun það ekkert leyndarmál að hann gangi til liðs við ítalska liðið.

Hinir nýju vinnuveitendur Vettels munu hafa vonast til að hann gæti spreytt sig á F14T bílnum við reynsluakstur liðanna í  Abu Dhabi 25. og 26. nóvember. En það virðist fjarlægur ef ekki útilokaður möguleiki.

Í samtalai við Salzburger Nachrichten segir Mateschitz að Red Bull muni ekki létta af honum samningsskyldum fyrr en „fimm dögum eftir síðasta kappakstur“. Með öðrum orðum, að hann geti ekki farið til starfa hjá Ferrari fyrr en 28. nóvember eða tveimur dögum eftir að reynsluakstrinum í Abu Dhabi lýkur.

Mateschitz segir að Vettel hafi verið útilokaður frá allri vinnu varðandi næsta árs bíl og fái engar upplýsingar lengur varðandi hann. Hann hafi eiginlega verið settur út í horn hjá liðinu þótt áfram fái hann sama bíl til að keppa á og Daniel Ricciardo. Þrátt fyrir þetta segir auðkýfingurinn austurríski að enginn sé gramur Vettel fyrir að fara til Ferrari. „Við óskum Sebastian alls hins besta. Skilnaðurinn fór fram í sátt allra sem er best fyrir báða aðila.“

Sebastian Vettel einbeittur á blaðamannafundi í Sjotsí.
Sebastian Vettel einbeittur á blaðamannafundi í Sjotsí. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert