Di Montezemolo: Alonso fer

Fernando Alonso og Luca Cordero Di Montezemolo á góðri stundu, …
Fernando Alonso og Luca Cordero Di Montezemolo á góðri stundu, í Monza. mbl.is/afp

Fernando Alonso yfirgefur Ferrari við vertíðarlok eftir fimm ára vist í herbúðum liðsins. Þetta staðfesti Luca di Montezemolo í sjónvarpsviðtali á Ítalíu, en hann lét í vikunni af störfum sem yfirmaður Ferrarifyrirtækisins.

Miklar vangaveltur hafa verið um framtíð Alonso hjá Ferrari eftir að Sebastian Vettel tilkynnti fyrir viku, að hann væri á förum frá Red Bull. Samdægurs sagði liðsstjóri  Red Bull,  Christian Horner, að Vettel færi til Ferrari og myndi keppa fyrir ítalska liðið á næsta ári, 2015.

„Það eru tvær ástæður fyrir brottför Alonso. Í fyrsta lagi vill hann skipta um umhverfi. Í öðru lagi vegna þess að hann er kominn á þann aldur að hann hefur ekki þolinmæði til að bíða endalaust eftir næsta sigri,“ sagði Montezemolo, en Alonso er 33 ára.

Alonso gekk til liðs við Ferrari árið 2010 en hefur ekki tekist að bæta við sig heimsmeistaratitlum sem liðsmaður þar á bæ. Titlana sína tvo vann hann með Renault árin 2005 og 2006. Þirsvar sinnum hefur hann þó hafnað í öðru sæti á undanförnum fjórum vertíðum.

„Það voru honum vonbrigði að hafa ekki unnið [titilinn] á þessum árum og þarf nýja örvun,“ bætti Montezemolo við.

Sterklegast hefur þótt koma til greina að Alonso gangi til liðs við McLaren á næsta ári, er liðið fær vélar í bíla sína frá Honda í stað Mercedes. 

Luca Cordero di Montezemolo.
Luca Cordero di Montezemolo. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert