Marussia einnig fjarverandi í Austin

Marussia keppir ekki í tveimur næstum mótum vegna fjárskorts.
Marussia keppir ekki í tveimur næstum mótum vegna fjárskorts. mbl.is/afp

Marussia verður ekki með í næstu tveimur mótum í formúlu-1 en áður hafði verið frá því skýrt, að Caterham verði ekki heldur með í þeim.

Formúlualráðurinn Bernie Ecclestone skýrði frá þessu í dag en þá voru bílar annarra keppnisliða sendir með flutningaflugvél til Austin í Texas þar sem bandaríski kappaksturinn fer fram eftir viku, 2. nóvember. Viku síðar, 9. nóvember, fer brasilíski kappaksturinn fram í Sao Paulo. 

Marussia hefur átt í erfiðleikum með að fjármagna rekstur sinn. Eftir er að koma í ljós hvort annað hvort liðanna eða bæði mæti síðan í lokamót ársins, í Abu Dhabi í 23. nóvember.

Af þessum sökum er ljóst að einungis 18 bílar verða á rásmarkinu í Austin en svo fáir hafa þeir ekki verið síðan í Mónakókappakstrinum 2005, er BAR-Honda var vísað frá keppni vegna brota á tæknireglum formúlunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert