Marussia til skiptaráðanda

Marussialiðið er komið til skiptaráðanda eins og Caterham.
Marussialiðið er komið til skiptaráðanda eins og Caterham. mbl.is/Marussiaf1

Orðrómur um erfiða fjárhagsstöðu margra liða formúlu-1 hefur verið á kreiki frá upphafi keppnistíðar og nú eru sannleikskornin að koma í ljós; Marussia er komið í hendur skiptaráðanda, degi eftir að Caterhamfór sömu leið.

Þrátt fyrir vandamálin hefur formúluliðunum ekki tekist að ná saman um verulega lækkun tilkostnaðar við íþróttina. Vegast þar á hagsmunir ýmiss konar og helst hefur náðst árangur um það efni, að stærstu liðin tefli fram þriðja bílnum hverfi þrjú lið úr keppni.

Með Marussia og Caterham í höndum skiptaráðanda má allt eins gera ráð fyrir að þau eigi ekki endurkvæmt. Þau verða allavega fjarverandi kappakstur komandi helgar í Texasríki í Bandaríkjunum og Sao Paulo í Brasilíu viku seinna.

Þar með vantar bara að eitt lið til viðbótar til að þriðji bíllinn verði að veruleika.Og FIA-forsetinn fyrrverandi, Max Mosley, telur miklar líkur á að fleiri lið en Marussia og Caterham bíði brátt bana.

Samkvæmt reglum formúlunnar getur lið - gegn góðri ástæðu - sleppt þremur mótum á vertíð án þess að þurfa draga sig úr keppni fyrir fullt og allt. Á þessu stigi er ekkert vitað hvort Marussia og Caterham mæti í lokamót formúlunnar í ár, í Abu Dhabi í nóvember. Ræðst það m.a. af því hvort nýir kaupendur að liðunum finnist áður en mótið rennur upp eftir rúmar þrjár vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert