Sluppu úr hengingarólinni

Eigi hefði þurft að losa flutningabíla Force Indialiðsins í Austin …
Eigi hefði þurft að losa flutningabíla Force Indialiðsins í Austin hefði liðið ekki greitt síðustu afborgunina af vélunum. mbl.is/Force India

Minnstu munaði að eins færi fyrir Force India og það yrði að sitja af sér kappakstur helgarinnar í Austin í Bandaríkjunum og mótið viku seinna í Sao Paulo í Brasilíu.

Liðið hafði ekki staðið í skilum sem skyldi vegna vélakaupa frá Mercedes-Benz og hafði verið gefinn lokafrestur þar til í gærkvöldi til að borga, elleegar fengi það enga mótora á mótsstað. 

Þýska tímaritið Auto Motor und Sport segir að Force India hafi losnað úr hengingarsnörunni á síðustu stundu og innt lokagreiðslu fyrir vélarnar af hendi.

Fyrir vikið getur liðið haldið áfram að kljást við McLaren um fimmta sætið i stigakeppni liðanna. Sú keppni skiptir máli fjárhagslega því fyrir fimmta sætið fær lið 62 milljónir dollara í verðlaunafé en 59 milljónir fyrir sjötta sæti.

Aðstoðarliðsstjóri Force India, Bob Fernley, tjáði sig um fjárhagsvanda smærri liðanna í formúlu-1 í dag og sagði það meðal annars áhyggjuefni, að í svonefndri stefnumótunarnefnd  formúlunnar sætu aðeins fimm stærstu liðin og höndluðu þar með málefni íþróttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert