Tímatökunni hugsanlega breytt

Sebastian Vettel ætlar að sitja tímatökuna í Austin af sér …
Sebastian Vettel ætlar að sitja tímatökuna í Austin af sér vegna mótorskipta. mbl.is/afp

Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) vegur nú og metur þann kost að breyta fyrirkomulagi tímatöku bandaríska kappakstursins í Austin í Texas vegna brottfalls Caterham og Marussia.

Vegna fjarveru þeirra verða keppnisbílarnir 18 í stað 22. Í mótum til þessa hafa sex þeirra fallið út í fyrstu lotu og sex til viðbótar í annarri. Með því hafa 10 bílar verið eftir til að keppa um fremstu sætin á rásmarkinu í þriðju lotunni.

Að óbreyttu féllu tveir bílar úr leik í fyrstu umferð í Austin. Og raunar fellur aðeins einn bíll úr eftir fyrstu umferð þar sem Sebastian Vettel hjá Red Bull segist ætla sitja af sér tímatökuna vegna vélarskipta og hefja keppni úr bílskúrareininni.

Í keppnisreglum formúlu-1 eru klásúlur sem gera FIA kleift að breyta fjölda bíla sem falla úr leik. Kveðið er á um að átta bílar myndu falla úr leik í hvorri tveggja fyrstu umferðanna  ef keppnisbílarnir væru 26. Sjö ef þeir væru 24 og fjórir ef þeir væru 18.

Þar með er möguleikinn sá að í Austin komist 14 bílar í aðra umferð í stað 16 og síðan falli aðrir fjórir úr leik í annarri umferðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert