Hamilton fljótastur á fyrstu æfingu

Síðasta hönd lögð á undirbúning í Austin í dag.
Síðasta hönd lögð á undirbúning í Austin í dag. mbl.is/afp

Lewis Hamilton hjá Mercedes ók hraðast á fyrri æfingu dagsins í Austin í Texas, en þar fer bandaríski kappaksturinn fram um helgina. Næsthraðast ók liðsfélagi hans Nico Rosberg og þriðja besta hringinn átti Jenson Button hjá McLaren.

Tæpleag 0,3 sekúndna munur var á bestu tímum Mercedesmannanna tveggja, en Button var síðan aðeins 86 þúsundustu úr sekúndu lengur með hringinn en Rosberg. Button var síðan meira en hálfri sekúndu fljótari en fjórði maður, Daniil Kvyat hjá Toro Rosso.

Danski nýliðinn Kevin Magnussen sá síðan til þess að báðir McLarenbílarnir yrðu í hópi fimm fremstu.

Fernando Alonso átti á köflum erfitt með að hemja Ferrarifákinn á brautinni en varð á endanum í sjötta sæti, 0,4 úr sekúndu á undan Sebastian Vettel hjá Red Bull.

Felipe Nasr vakti athygli á sinni fjórðu æfingu á árinu með Williamsliðinu. Setti hann sjöunda besta hringinn og var þremur sætum á undan liðsfélaga sínum Felipe Massa. Á þeim munaði tæplega 0,4 sekúndum.

Fyrsta tuginn fylltu síðan Nico Hülkenberg hjá Force India og varamaðurinn Max Verstappen hjá Toro Rosso en hann mun keppa fyrir liðið á næsta ári.

Kimi Räikkönen gerði framan af tilraunir varðandi loftflæði um bílinn sem var hulinn sérstakri flæðimálningu og fjölda skynjara í því skyni. Undir lokin drapst á bílnum í bílskúrareininni vegna bilunar.

Romain Grosjean prófaði nýja trjónu á Lotusbílnum en eftir 26 hringi sat hann í neðsta sæti lista yfir hröðustu hringi æfingarinnar.

Hamilton á leið til fyrsta sætis á lista yfir hröðustu …
Hamilton á leið til fyrsta sætis á lista yfir hröðustu hringi fyrstu æfingarinnar í Austin. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert