Þrír þúsundustu skildu þá að

Lewis Hamilton á Mercedesbílnum í Austin í dag.
Lewis Hamilton á Mercedesbílnum í Austin í dag. mbl.is/afp

Aðeins þremur þúsundustu úr sekúndu munaði á bestu tímum Mercedesfélaganna Lewis Hamilton og Nico Rosberg á seinni æfingu dagsins í Austin í Texas. Varð Hamilton ofan á eins og á fyrri æfingunni.

Yfirburðir Mercedes voru miklir því Fernando Alonso var rúmri sekúndu lengur með hringinn en varð þriðji á lista yfir hröðustu hringi ökumannanna.

Ekki var allt slétt og fellt hjá Mercedesmönnum því báðir sögðu af gírkassavanda í talstöðinni og var Hamilton látinn hætta akstri þegar 15 mínútur voru enn eftir af æfingunni.

Daniel Ricciardo setti fjórða besta tímann en hann var um tug sæta aftar á fyrri æfingunni vegna tæknilegra vandamála. Á hæla hans komu Felipe Massa hjá Williams og Kimi Räikkönen hjá Ferrari.

Daniil Kvyat hjá Toro Rosso varð sjöundi og McLarenmennirnir Kevin Magnussen og Jenson Button áttu áttunda og níunda besta hringinn. Nico Hülkenberg hjá Force India fyllti svo fyrsta tuginn. 

Sebastian Vettel hjá Red Bull fór sparlega með nýja aflrás sína og setti langlakasta hring dagsins. Hann mun einnig spara vélina í tímatökunum á morgun þar sem hún verður að duga í þremur síðustu mótunum.

Nico Rosberg á ferð í Austin í dag.
Nico Rosberg á ferð í Austin í dag. mbl.is/afp
Dekk ökumanna Mercedes undirbúin undir æfingar föstudagsins í Austin í …
Dekk ökumanna Mercedes undirbúin undir æfingar föstudagsins í Austin í Texas. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert