Ferrari staðfestir brottför Alonso

Sebastian Vettel (l.t.v.) og Alonso gantast á blaðamannafundi í Abu …
Sebastian Vettel (l.t.v.) og Alonso gantast á blaðamannafundi í Abu Dhabi í dag. Að baki er Lewis Hamilton. mbl.is/afp

Ferrari staðfesti í dag það sem lengi hefur verið á flesrta vitorði, að Fernando Alonso myndi um helgina keppa í síðasta sinn fyrir liðið. Þar með er ekki lengur til fyrirstöðu fyrir Ferrari að staðfesta ráðningu Sebastian Vettels.

Í tilkynningu sagði Ferrari að samkomulag hefði tekist með liðinu og Alonso um að hann hyrfi úr herbúðum þess tveimur árum áður en samningar gerðu ráð fyrir.

Alonso gekk í raðir Ferrari í ársbyrjun 2010 og síðan hefur hann þrisvar sinnum orðið í öðru sæti í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna. Talið hefur verið að hann sé á förum til McLaren.

„Þetta er ekki auðveld stund fyrir mig því enda þótt ég horfi mjög spenntur til framtíðarinnar þá er skeiði mínu sem ökumaður Ferrari að ljúka. Það var erfið ákvörðun að taka en vandlega ígrunduð enda ást mín á Ferrari mikil. Ég hef ætíð verið í þeirri eftirsóknarverðu aðstöðu að ákveða framtíð mína sjálfur og svo er aftur nú. Fyrir það verð ég að þakka liðinu sem hafði skilning á aðstöðu minni. Ég er mjög hreykinn yfir því sem við höfum afrekað saman,“ sagði Alonso í dag.

Alonso vann 11 mótssigra, komst 44 sinnum á verðlaunapall og aflaði Ferrari 1186 stiga sem ökumaður Ferrari. Þessar tölur gætu breyst á sunnudag, í lokamóti hans með liðinu í Abu Dhabi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert