Vettel semur til þriggja ára

Vettel (t.v.) leysir Alonso (t.h.) af hólmi hjá Ferrari.
Vettel (t.v.) leysir Alonso (t.h.) af hólmi hjá Ferrari. mbl.is/afp

Sebastian Vettel hefur skrifað undir samning um að keppa næstu þrjú árin fyrir Ferrari. Kemur hann  í stað Fernando Alonso sem fengið hefur sig lausan undan samningi sem gilti út árið 2016.

Vettel hefur keppt fyrir Red Bull frá 2009 en tilkynnt var á japönsku kappaksturshelginni fyrir hálfum öðrum mánuði að þaðan væri hann á förum.

Því fylgdu staðhæfingar af hálfu forsvarsmanna Red Bull að Vettel færi til Ferrari, en ítalska liðið beið með að tjá sig um það uns brottför Alonso væri frágengin.

„Næsta skeið ferilsins verður hjá Ferrari og fyrir mér er það æðsti draumur lífsins að rætast,“ sagði Vettel í dag.

„Þegar ég var krakki var Michael Schumacher á rauðu bílunum helsta hetjan mín og það er stórkostlegur heiður að fá nú tækifæri til að aka Ferrari. Ég fékk forsmekkinn af því hvað Ferrariandinn táknar þegar ég vann minn fyrsta kappakstur í Monza árið 2008 með Ferrarivél í bílnum. Liðið á mikla sögu í íþróttinni og ég er mjög spenntur fyrir því að hjálpa liðinu að komast aftur á toppinn. Ég mun leggja sál mína og hjarta í það,“ bætti Vettel við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert